Viðskipti innlent

Starfsemi Fluke á Íslandi er hluti af fjármögnun fyrirtækja

Stórfyrirtæki Bandarískt framleiðslufyrirtæki með yfir 50.000 starfsmenn og 1.600 milljarða veltu á að minnsta kosti þrjú dótturfyrirtæki á Íslandi, sem hafa ýmiss konar verðbréfastarfsemi að tilgangi og greiða tvö þeirra verulega skatta hér á landi í ár.Fréttablaðið/Pjetur
Stórfyrirtæki Bandarískt framleiðslufyrirtæki með yfir 50.000 starfsmenn og 1.600 milljarða veltu á að minnsta kosti þrjú dótturfyrirtæki á Íslandi, sem hafa ýmiss konar verðbréfastarfsemi að tilgangi og greiða tvö þeirra verulega skatta hér á landi í ár.Fréttablaðið/Pjetur

Fluke Finance, sem greiddi 528 milljónir króna í skatt á Íslandi vegna hagnaðar síns á árinu 2008, er eitt að minnsta kosti þriggja félaga sem skráð eru til heimilis á skrifstofum Deloitte hér á landi og tengjast bandarísku fyrirtækjasamsteypunni Danaher Corporation.

Auk þeirra 528 milljóna sem Fluke Finance greiðir í skatta hér á landi mun annað dótturfélag Danaher, Danaher Iceland Finance Company ehf., greiða um 100 milljónir króna í skatta hér á landi í ár vegna hagnaðar síðasta árs. Ekki liggja fyrir upplýsingar um afkomu þriðja félagsins, sem er með um 50 milljarða króna í skráð hlutafé.

Tveir menn, Frank t. McFaden og James H. Ditkoff eru skráðir stjórnar- og varastjórnarmenn allra þriggja félaganna. McFaden hefur verið stjórnandi á fjármálasviði Danaher Corporation en Ditkoff er einn æðsti stjórnandi samsteypunnar; aðstoðarforstjóri á sviði fjármála og skatta.

Danaher Iceland Finance, sem var stofnað árið 2005, hélt aðalfund sinn hér 13. október síðastliðinn og skilaði ársreikningi fyrir 2008 í síðasta mánuði. Það hefur 500.000 krónur íslenskar í skráð hlutafé en í ársreikningnum kemur fram að félagið áætlar að greiða hér um 874.000 bandaríkjadali, eða rúmar 100 milljónir króna, í skatt á þessu ári vegna starfsemi síðasta árs.

Hagnaðurinn eftir skatta er rúmar 280 milljónir króna, eða um 2,2 milljónir dala. Á árinu 2007 var hagnaðurinn 2,7 milljónir dala en þá greiddi fyrirtækið ekki skatta. Reikningurinn ber með sér að langstærsta eign félagsins er lán til fyrirtækisins Kollmorgen Asia Investment að upphæð 1.159 þúsund milljónir bandaríkjadala, eða um 144 milljarðar íslenskra króna. Kollmorgen er eitt af útibúum Danaher-samsteypunnar. Vaxtatekjur af þessu láni námu tæpum 86 milljónum bandaríkjadala, eða tæpum 11 milljörðum króna, á síðasta ári.

Skuld að fjárhæð 1.150 milljónir dala, eða um 140 milljarða, er svo færð til bókar við annað dótturfélag sömu samsteypu, Danaher Finance Company. Vaxtagjöld vegna þess láns námu 82 milljónum dala, eða um 10 milljörðum króna.

Þriðja félagið, Danaher European Finance Company ehf., hefur tæplega 260 milljónir evra í hlutafé, eða um 50 milljarða króna. Það hefur aldrei skilað ársreikningum frá stofnun 2006 en hefur sem tilgang kaup, sölu og eignarhald á verðbréfum og fasteignum ásamt lánastarfsemi tengda rekstrinum.

peturg@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×