Viðskipti innlent

Glitnir braut lög með því að skuldsetja börn

Ekki á að innheimta lánin hjá börnunum og því lendir tapið á bankanum.Fréttablaðið/heiða
Ekki á að innheimta lánin hjá börnunum og því lendir tapið á bankanum.Fréttablaðið/heiða

Lán Glitnis til barna fyrir kaupum á stofnfjárhlutum í Byr eru lögbrot, segir deildarstjóri sifja- og skiptadeildar hjá sýslumanninum í Reykjavík. Hún segist aldrei hafa kynnst máli af þessu tagi áður.

Tíu börn, hið yngsta eins árs, fengu lán af þessu tagi árið 2007. Flest eru þau börn stofnfjáreigenda í Byr. Lánin námu frá tveimur og upp í 24 milljónir.

Áður en ólögráða barni eða manni er veitt lán af þessu tagi þarf samþykki frá yfirlögráðanda, í þessu tilviki sýslumanninum í Reykjavík. Slíkt samþykki fékkst ekki fyrir þessum lánum en þau voru engu síður veitt.

Eyrún Guðmundsdóttir, deildarstjóri sifja- og skiptadeildar hjá sýslumanni, segir að með því hafi Glitnir framið ótvírætt lögbrot. Ákveðið hafi verið að hafna beiðnunum um lánin „af því að þetta fól í sér áhættu fyrir börnin sem við töldum ekki forsvaranlegt að fara út í", segir Eyrún.

Foreldrar sumra barnanna sögðu í viðtali við DV í gær að lánin hefðu þvert á móti ekki falið í sér neina áhættu, enda hefðu þau aðeins haft veð í stofnfjárbréfunum sjálfum. Eyrún er ósammála foreldrunum. „Það var ekki okkar mat, en það getur verið að fólk sjái þetta mismunandi augum."

Eyrún segir að mál sem þetta hafi aldrei komið upp hjá þeim áður. Þau fái af og til beiðnir um samþykki fyrir lánum til handa ólögráða einstaklingum, en þá sé yfirleitt um að ræða stálpaða unglinga.

„Við höfum samþykkt einhver erindi um það að krakkar sem eru að nálgast lögræðisaldur fái lán til að kaupa fasteign," segir Eyrún. Aldrei áður hafi beiðnir borist um lánveitingar af þessu tagi til kornungra barna.

Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, segir að rétt væri að kanna réttarstöðu barnanna vegna málsins í ljósi þess að um ólögmætar lánveitingar var að ræða.

„Það vaknaði spurning hjá mér hvort það væri ekki eðlilegt að umboðsmaður barna gætti hagsmuna barnanna og skoðaði réttarstöðu þeirra í þessu máli, ekki bara gagnvart foreldrunum, heldur ekki síst gagnvart lánastofnuninni," segir Lilja. „Mér finnst sjálfsagt að kanna hvort hægt sé að sækja mál á hendur bankanum vegna þessa." Ekki náðist í umboðsmann barna.

Bankastjóri Íslandsbanka hefur lýst því yfir að um mistök hafi verið að ræða og að lánin ólöglegu verði ekki innheimt.stigur@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×