Innlent

Rúmlega helmingur ók yfir hámarkshraða

46 voru staðnir að hraðakstri á Álfhólsvegi í Kópavogi á miðvikudag en þar var staðsett ómerkt lögreglubifreið sem er búin myndavélabúnaði. Þá voru 141 ökumenn staðnir að hraðakstri á Strandvegi í Reykjavík á sama tíma.

Á vef lögreglunnar segir að reynslan hafi sýnt að notkun slíks búnaðar gefi gagnlegar upplýsingar um ástand umferðarmála og auðveldi leit að lausnum þar sem þeirra er þörf. Mælingarnar á miðvikudag eru hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í og við íbúðargötur í umdæminu.

Eins og fyrr sagði voru brot 46 ökumanna mynduð á Álfhólsvegi en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í austurátt, skammt frá gatnamótum Þverbrekku og Álfaheiðar. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 99 ökutæki þessa akstursleið og því óku 46% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 43 kílómetrar á klukkustund en þarna er 30 kílómetra hámarkshraði. Fjórir óku á 50 kílómetra hraða á klukkustund eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 54.

 

Fyrir ári var lögreglan við hraðamælingar á þessum sama stað á Álfhólsvegi og þá óku 36% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða en þá var svipuð umferð um götuna. Meðalhraði hinna brotlegu í fyrra var líka 43 kílómetrar á klukkustund.



Svipað hlutfall og í fyrra


Brot 141 ökumanns var myndað á Strandvegi en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í suðurátt, gegnt Gufunesi. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 277 ökutæki þessa akstursleið og því óku 51% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða.

Meðalhraði hinna brotlegu var 67 kílómetra hraði á klukkustund en þarna er 50 kílómetra hámarkshraði. Fjörutíu og einn ók á 70 kílómetra hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 87.

 

Fyrir ári var lögreglan við hraðamælingar á sama stað og þá óku 52% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða en þá var meiri umferð um götuna. Meðalhraði hinna brotlegu í fyrra var 66 kílómetrar á klukkustund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×