Viðskipti innlent

Merkilega lítil fjölgun vanskila

MYND/Heiða

Einstaklingum á vanskilaskrá hefur fjölgað um 25 prósent frá ársbyrjun 2008. Greining Íslandsbanka segir að miðað við þau erfiðu efnahagslegu skilyrði sem heimilin hafa búið við undanfarin misseri komi þetta ekki á óvart.

„Frá því í ársbyrjun 2008 til 15. október í ár var fjölgunin 25% eða sem nemur um 4 þúsund einstaklingum. Um miðjan október voru tæplega 20 þúsund einstaklingar 18 ára og eldri skráðir á vanskilaskrá sem jafngildir um 6,7% af öllum fjárráða einstaklingum á landinu. Vanskil eru algengust meðal fólks á aldrinum 30-49 ára en um 9% þeirra voru í vanskilum um miðjan október," segir í Morgunkorni og er þar vitnað í úttekt Creditinfo.

Merkilega lítil fjölgun

Greiningardeildinni finnst fjölgunin þó merkilega lítil miðað við þær miklu efnahagslegu breytingar sem hér hafa orðið á undanförnum misserum. „Á síðustu 5 árum hefur hlutfall fjárráða einstaklinga á vanskilaskrá ekki farið niður fyrir 5% og þrátt fyrir það góðæri sem þá ríkti. Má ætla að hlutfallið nú væri hærra ef ekki væri fyrir þau úrræði sem heimilum hefur verið boðið til að mæta greiðsluerfiðleikum, þ.e.a.s. frystingu lána og greiðslujöfnun," segir Greiningardeildin. „Það er ekki síst af þessum sökum sem gjaldþrotum einstaklinga hefur fækkað um 55 tilfelli á milli ára, en á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa alls 78 einstaklingar orðið gjaldþrota samanborið við 133 á sama tímabili í fyrra. Þennan viðsnúning má þó einkum rekja til þess að í vor tóku í gildi sérstök lög skilgreind sem greiðsluaðlögun eða nauðasamningar í stað gjaldþrotameðferðar."

Veruleg aukning fyrirsjáanleg

„Miðað við óbreyttar aðstæður er enn veruleg aukning einstaklinga á vanskilaskrá fyrirsjáanleg samkvæmt áhættumati Creditinfo," segir ennfremur. „Reikna má með að yfir 7 þúsund einstaklingar munu bætast við á vanskilaskrá næsta árið. Samkvæmt sama áhættumati býr meirihluti íslenskra heimila enn við mjög gott lánshæfismat. Með fyrirhuguðum aðgerðum í lánamálum heimilanna og m.v. horfur í efnahagsmálum líkt og nú er verða flestir einstaklingar færir um að standa í skilum án þess að lenda í alvarlegum fjárhagserfiðleikum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×