Viðskipti innlent

Innstæður greiddar tæpu ári eftir hrun

Skiptastjórar Kaupþing Singer og Friedlander hafa tilkynnt innstæðueigendum bankans á bresku eyjunni Mön, að þeir muni fá fyrsta hluta Kaupthing Edge innstæðna sinna greiddar þann 4. september næstkomandi, ellefu mánuðum eftir fall bankans. Það er breska ríkisútvarpið sem greinir frá þessu.

Til að byrja með munu innstæðueigendurnir fá 22,1 pens fyrir hvert pund sem þeir lögðu inn í bankann. Síðar í september munu sparifjáreigendurnir síðan fá afganginn frá breska ríkinu í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar.

Singer og Friedlander var dótturfélag Kaupþings á Bretlandi og því gilda ekki sömu lög um ábyrgð íslenska ríkisins á innstæðum sparifjáreigenda og til að mynda með Icesave reikninga Landsbankans sem heyrðu undir útibú Landsbankans í London.

Um það bil 75 prósent af sparifjáreigendum, það er að segja þeir sem höfðu lagt allt að 50 þúsund pund inn á reikninga hjá Kaupthing Edge munu fá innstæður sínar greiddar að fullu í september. Ólíklegt er talið að þeir sem ætluðu sér að ávaxta meira fé hjá bankanum fái meira fyrir sinn snúð en áðurnefnd 50 þúsund pund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×