Erlent

Karzai og Abdullah jafnir

Kosningastjóri Karzais brosir breitt Haji Din Mohammed var ánægður með forskot Karzais, sem þó var harla lítið því aðeins tíu prósent atkvæða hafa verið talin.fréttablaðið/AP
Kosningastjóri Karzais brosir breitt Haji Din Mohammed var ánægður með forskot Karzais, sem þó var harla lítið því aðeins tíu prósent atkvæða hafa verið talin.fréttablaðið/AP

Samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum úr forsetakosningunum í Afganistan, sem haldnar voru í síðustu viku, eru líkur á því að halda þurfi aðra umferð kosninganna taldar hafa aukist mjög.

Þegar búið var að telja tíu prósent atkvæða voru Hamid Karzai, núverandi forseti, og Abdullah Abdullah, fyrrverandi utanríkisráðherra í stjórn Karzais, báðir með um 40 prósent atkvæða. Karzai hafði þó örlítið forskot, hafði fengið 40,6 prósent en Abdullah 38,7 prósent.

Nái hvorugur þeirra meira en 50 prósentum þarf að kjósa á ný milli tveggja efstu frambjóðenda, sem væntanlega verða þeir Karzai og Abdullah.

Bæði lítil kosningaþátttaka og gagnkvæmar ásakanir um útbreitt kosningasvindl hafa þó varpað skugga á kosningarnar. Töluverð hætta er á að lítil sátt verði um úrslit þeirra.

Karzai hefur að vísu boðið Abdullah, og öðrum mótframbjóðendum sínum, ráðherrasæti í ríkisstjórn sinni, fari svo að hann haldi embættinu. En ekki er víst að það dugi, ef fótur reynist fyrir ásökunum um kosningasvindl.

„Kosningasvindl gæti leitt af sér aukna spennu og ofbeldi,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu frá sex forsetaframbjóðendum. Hvorki Karzai né Abdullah voru þó meðal þeirra.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×