Viðskipti innlent

Mikil áhættufælni Íslendinga

Íslendingar eru ekki eins áhættusæknir og undanfarin ár og hafa dregið verulega úr áhættusömum fjárfestingum.
Íslendingar eru ekki eins áhættusæknir og undanfarin ár og hafa dregið verulega úr áhættusömum fjárfestingum.
Mikið lausafé er nú í íslenska fjármálakerfinu. Þetta má meðal annars sjá í nýjum gögnum Seðlabankans um innlán lánastofnana í Seðlabankanum. Þegar kreppir að, sérstaklega í kjölfar bankakreppu líkt og riðið hefur yfir Ísland, frestar fólk neyslu og fjárfestingar dragast hratt saman. Hagsjá Landsbankans segir að innlánsvextir Seðlabankans skipti meira máli en stýrivextir um þessar mundir.



Áhættufælni eykst við erfiðar markaðsaðstæður


Fólk og fyrirtæki kjósa fremur að spara en eyða og því aukast innstæður hratt. Hugsanlega er hér einnig um að ræða viðleitni til að auka á ný peningalegar eignir eftir þann skell sem varð í bankahruninu. Loks hefur áhættufælni aukist og sparnaður leitar í öruggustu sparnaðarformin, innlán og ríkisverðbréf. Frá bankahruninu síðasta haust hafa innlán í íslenskum bönkum aukist þónokkuð en um það bil 20% aukning hefur verið á innlánum innlendra aðila í innlánsstofnunum.



Bankarnir ávaxta innlán sín í Seðlabankanum


Fáir fjárfestingarkostir valda því að bankarnir leita oftar en ekki í faðm viðkomandi Seðlabanka til þess að ávaxta þetta lausafé. Sú hefur orðið raunin hér á landi, laust fé hefur safnast á viðskiptareikninga banka í Seðlabankanum. Á fyrri helmingi þessa árs jukust innstæður innlánsstofnana í Seðlabankanum um 64% frá áramótum til loka júlí mánaðar.

Að lokum bendir Greiningardeildin á að við þessar aðstæður bíta stýrivextir Seðlabankans ekki sem skyldi. Hagsjáin hefur áður sagt frá því að í raun skipti innlánsvextir hans meira máli um þessar mundir en stýrivextirnir sem eru útlánsvextir bankans. Innlánsvextir Seðlabankans eru þeir vextir sem lánastofnunum bjóðast á viðskiptareikningum sínum hjá Seðlabankanum.

Stýrivextir Seðlabankans eru nú 12% en innlánsvextir 250 punktum lægri eða 9,5%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×