Viðskipti innlent

Már Guðmundsson segir krónuna vanmetna

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri. Mynd/gva
Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, segir í viðtali við Bloomberg fréttaveituna að íslenska krónan sé vanmetin þrátt fyrir mikil gjaldeyrishöft til að koma í veg fyrir frekara hrun krónunnar og afar jákvæðan viðskiptajöfnuð undanfarna ellefu mánuði.

„Gengi krónunnar er vel fyrir neðan jafnvægisgildi hennar til meðallangs tíma. Við höfum haft afar jákvæðan viðskiptajöfnuð á undanförnum ellefu mánuðum en hann hefur ekki verið nægur til að styrkja gengi krónunnar þar sem aðrir þættir koma í veg fyrir styrkingu hennar, svo sem þrýstingur frá erlendum fjárfestum sem eiga íslenskar eignir," segir Már.

Már segir að peningastefnunefnd Seðlabankans verði ávallt að taka gengi krónunnar til ítarlegrar skoðunar þegar hún kemur saman.

Fall íslensku krónunnar hefur verið það þriðja mesta af gjaldmiðlum hinna svokölluðu nýmarkaða síðan í lok mars en Bloomberg tekur saman gengi gjaldmiðla 26 nýmarkaðslanda.

Már segir mest að mest krefjandi verkefni Seðlabankans sé að finna leiðir til að lækka stýrivexti seðlabankans án þess að það hafi áhrif til lækkunar gengis krónunnar og um leið afnema gjaldeyrishöft. Afnám gjaldeyrishafta mun hefjast þann 1. nóvember næstkomandi.

Að lokum segir Már að hann sé ekki viss um að krónan sé rétti gjaldmiðillinn fyrir Ísland til langs tíma litið.

„Það er mjög erfitt að vera með sjálfstæða peningastefnu á sama tíma og landið er eins tengt umheiminum á fjármálasviðinu og raun ber vitni. Þar af leiðandi er ráðlegt að skoða alla möguleika á þáttöku í myntbandalagi en sú ákvörðun er að sjálfsögðu í höndum stjórnmálamanna," segir Már í viðtali við Bloomberg og á hann þar við Evrópusambandsaðild.

Grein Bloomberg má sjá hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×