Skoðun

Auður Íslands

Örlygur Hnefill Jónsson skrifar um nýtingu auðlinda

Samdráttur í hefðbundnum atvinnuvegum landsbyggðarinnar hefur verið viðvarandi undanfarna áratugi. Breytingar í landbúnaði og fækkun starfa hefur sett mark sitt á landsbyggð alla. Sama er að segja um sjávarútveginn þar sem niður­skurður veiðiheimilda og tilflutningur minnkandi kvóta hefur farið illa með byggðir. Við þessa stöðu hefur m.a. verið litið til þess að nýta þær orkuauðlindir sem landið býr yfir. Fallvötn hafa verið virkjuð og lengst af var rekin sú nýlendustefna að flytja orkuna inn á höfuðborgarsvæðið til þess að efla þar atvinnu og styrkja byggð.

Nú er hinsvegar komið það hljóð í strokkinn að landsbyggðin vill og þarf á öllum sínum möguleikum að halda. Því segjum við Þingeyingar að við ætlum að nýta orku okkar landshluta til atvinnuuppbyggingar í heimabyggð. Það sama hafa Austfirðingar gert og sjá vildi ég það sama í auknum mæli á Suðurlandi og í Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ. Allir þekkja uppbygginguna á Hvalfjarðarströnd og Vestfirðingar eiga sóknarfæri í því að treysta raforkuframleiðslu sína og rafmagnsöryggi. Á Norðurlandi vestra eru möguleikar að framleiða rafmagn og sjálfsagt væri að nýta það rafmagn sem nú er framleitt í Blönduvirkjun til að styrkja heimabyggðina þar sem á þarf að halda.

Meðan ríkir íslenskir bankar lánuðu til fjárfestinga í útlöndum sem fuku í vindinn var Byggðastofnun að lána til innlendrar atvinnuuppbyggingar, m.a. í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og nýsköpun sem skapar gjaldeyri og veitir vinnu. Eins hefur stofnunin aukið lánveitingar sínar til landbúnaðar, sem er mikið byggðamál, sem treystir byggð og sparar gjaldeyri. Nú er treyst á þessa atvinnuvegi sem aldrei fyrr og munu auðlindir landsbyggðarinnar vega þungt í endurreisninni.

Ársfundur Byggðastofnunar verður haldinn á Hótel Reynihlíð 20. maí 2009 kl. 13.00 og er öllum velkomið að mæta til fundarins. Umræðuefni fundarins verður nýting orkuauðlinda til svæðisbundinnar uppbyggingar. Verða þannig skoðaðir þeir möguleikar sem þjóð okkar á til að komast betur og fyrr upp úr því fúafeni skulda og alþjóðlegrar skammar sem við erum öll í. Með nýtingu auðlinda getum við eflt innviði samfélagsins, heilbrigðis- og menntakerfi, menningu og mannlíf.

Höfundur er varaþingmaður og formaður stjórnar Byggðastofnunar.




Skoðun

Sjá meira


×