Viðskipti innlent

OECD: Reiknar með 7% atvinnuleysi næsta ár

Í nýrri skýrslu OECD um horfurnar í efnahagsmálum heimsins (Economic Outlook) reiknar stofnunin með að atvinnuleysi á Íslandi verði um 7% á næsta ári en minnki svo í 6,4% árið 2011. OECD telur að niðursveiflan á Íslandi haldi áfram þar til snemma á næsta ári.

Frá miðju næsta ári gerir OECD ráð fyrir að efnahagsbati fari í gang á Íslandi en batinn byggist á því að það takist að koma stöðugleika á í fjármálakerfi landsins og að fjárfestingar komi til í nýjum orkuverkefnum. Hagvöxtur verði orðinn jákvæður um 2,6% árið 2011 en hann verði neikvæður um 7% í ár og neikvæður um 2,1% á næsta ári.

Í skýrslunni segir að verðbólgan muni falla niður í 2,5% árið 2011 en hún verði 5,8% á næsta ári. Þ'a er reiknað með að stöðugt dragi úr fjárlagahallanum og að hann verði kominn niður í 1,5% af landsframleiðslu árið 2011.

OECD segir það mikilvægt til að spá þeirra um þróun mála á Íslandi gangi eftir að tökum verði náð í stöðugleika í efnahagsmálum þannig að fjármál hin opinbera verði sjálfbær. Peningastefnan eigi að einbeita sér að stöðuleika krónunnar og jafnframt að nauðsynlegt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum eins fljótt og hægt er til að koma á að nýju eðlilegum tengslum við erlenda markaði. Þannig fái fyrirtæki á ný aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum.

Hvað Bandaríkin og evrusvæðið varðar er OECD nú bjartsýnna en áður á þróun mála og segir vöxt framundan eftir illvíga kreppu. Reiknað er með vexti í hagkerfi Bandaríkjanna upp á 2,5% á næsta ári en í síðustu spá stofnunarinnar var aðeins gert ráð fyrir 0,9% vexti.

OECD hefur einnig endurmetið vöxtinn á evrusvæðinu og telur nú að hann verði einu prósentustigi hærri en áður var spáð. Samkvæmt því verði hann 0,9% á næsta ári en áður reiknaði OECD með lítilsháttar samdrætti á svæðinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×