Viðskipti innlent

Atlantic Petroleum skilaði tapi upp á 835 milljónir

Atlantic Petroleum skilaði tapi eftir skatt upp á 33,4 milljónir danskra kr. eða um 835 milljónir kr. á þriðja ársfjórðungi ársins. Þar með er tap ársins komið í 65,8 milljónir danskra kr.

Wilhelm Petersen forstjóri Atlantic Petroleum er þó bjartsýnn og ánægður með árangur félagsins á þriðja ársfjórðung. Petersen segir í tilkynningu um uppgjörið að hagnaður hafi verið af sjálfum olíurekstri félagsins og lausafjárstaðan sé sterk.

Fram kemur í uppgjörinu að brúttóhagnaður (EBIT) hafi verið 9,9 milljónir danskra kr. á ársfjórðungnum og er það í fyrsta sinn á árinu sem slíkur hagnaður næst.

Atlantic framleiddi 2.025 tunnur af olíu á dag af vinnslusvæðunum sínum sem er nokkuð betra en á tveimur fyrstu fjórðungum ársins þegar framleiðslan nam 1.630 tunnum á dag. Munar þar mestu um að Ettrick-svæðið hóf að framleiða olíu í ágúst s.l.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×