Erlent

Konunglegt klúður

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Týndur, skemmdur eða seinn póstur hefur kostað konunglegu bresku póstþjónustuna eina milljón punda á mánuði að meðaltali síðasta árið.

Þessi upphæð samsvarar rúmum 200 milljónum króna enda voru kvartanir til póstsins 600.885 á síðasta fjárhagsári sem er fjölgun um níu prósent frá árinu þar á undan. Pósturinn reiddi fram vel rúmlega þúsund bótagreiðslur hvern einasta dag ársins og fór upphæðin yfir 13 milljónir punda, eða rúmlega 2,6 milljarða króna, í heildina.

Eins og þetta sé ekki nóg voru kvartanir vegna dónalegrar eða ruddafenginnar framkomu póstburðarfólks 56 og kostuðu póstinn rúmlega 3.400 pund í bætur. Hundrað og sjö sinnum var kvartað yfir því að starfsfólk póstsins væri sóðalegt í útliti eða klæðaburði og tæplega 3.000 kvartanir bárust vegna glæfralegs aksturslags þess eða umferðaróhappa af völdum starfsfólks.

Matthew Elliott, framkvæmdastjóri samtaka skattgreiðenda í Bretlandi segir þessar tölur tala sínu máli og bera vott um fullkomna ringulreið, hæfnisskort og rugl hjá konunglega póstinum sem hann telur allt annað en konunglegan. Steve Lawson, ritstjóri fréttasíðu, sem ber hið sérkennilega nafn Hellmail og fjallar um póstmál í Evrópu, segist ekki hissa á þessu miðað við þann niðurskurð sem pósturinn hefur mátt sæta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×