Viðskipti innlent

Skilanefndir hafa kostað FME rúmlega 300 milljónir

Skilanefndir bankanna hafa kostað Fjármálaeftirlitið (FME) 318,9 milljónir kr. frá falli bankanna í fyrra. Þetta kemur fram í svari Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra í fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur þingkonu Framsóknarflokksins.

Mestur er kostnaðurinn við skilanefnd Landsbankans eða 116,8 milljónir kr., kostnaður við skilanefnd Kaupþings er rúmar 108 milljónir kr. og Glitnis 93,8 milljónir kr.

Vigdís Hauksdóttur bað um sundurliðun á kostnaðinum eftir launum og öðrum fríðindum hverrar skilanefndar, innlendum sérfræðikostnaði og erlendum sérfræðikostnaði?



Í svarinu segir að enginn kostnaður hefur fallið á efnahags- og viðskiptaráðuneytið eða forvera þess, viðskiptaráðuneytið, vegna starfa skilanefnda.

Þess var óskað að Fjármálaeftirlitið (FME) veitti upplýsingar um þann kostnað sem kynni að hafa fallið á þá stofnun og byggist eftirfarandi svar á upplýsingum frá FME.



Verktakakostnaður FME vegna skilanefnda Kaupþings banka, Glitnis banka og Landsbankans er á tímabilinu október 2008 til og með apríl 2009 samtals kr. 318,9 millj. kr. Um er að ræða greiðslur samkvæmt verksamningum sem FME gerði við skilanefndirnar.

Fjárhæðirnar eru án virðisaukaskatts þar sem FME fékk hann endurgreiddan. Annar kostnaður af störfum skilanefnda er á vegum bankanna sjálfra og færist sem hluti af rekstrarkostnaði þeirra. FME hefur ekki nánari upplýsingar um rekstrarkostnað hinna föllnu banka.

Lýst hefur verið kröfum í bú gömlu bankanna vegna framangreinds kostnaðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×