Viðskipti innlent

MP Banki skilaði 412 milljóna tapi á fyrri helming ársins

Rekstur MP Banka hf. skilaði 412 milljóna króna tapi á fyrstu sex mánuðum ársins 2009. Til samanburðar var ríflega 1,5 milljarða kr. hagnaður af rekstrinum á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu frá bankanum segir að MP Banki hóf rekstur hefðbundinnar viðskiptabankastarfsemi í maí. Undirbúningur hennar var mjög kostnaðarsamur og fer starfsemin ekki að skila arðsemi fyrr en á seinni hluta ársins.



Fram kemur að í afskriftasjóði bankans eru nú samtals 2.263 milljónir króna, þar af eru 1.723 milljónir vegna útlána sem hugsanlega kunna að tapast. Nemur sú fjárhæð 15,6% af heildarútlánum bankans. Á tímabilinu voru útlán og kröfur að fjárhæð samtals 166 milljónum króna afskrifaðar að fullu.

Bókfært tap vegna hlutdeildarfélaga var 72 milljónir króna en af þeim var 83ja milljóna króna hagnaður árinu áður. Tapið nú er til komið vegna MP Pension- Funds Baltic sem er lífeyrissjóðafyrirtæki í Litháen í 50% eigu MP Banka.

Uppbygging þess gengur samkvæmt áætlun en fjárfestingin er afskrifuð jafnóðum og viðskiptavild ekki eignfærð. Hlutdeildarfélagið Hraunbjarg var afhent hluthöfum á tímabilinu sem arðgreiðsla og reiknast afkoma þess ekki lengur samkvæmt hlutdeildaraðferð.

Eigið fé bankans nam 5.294 milljónum króna en heildareignir voru 56.720 milljónir. Reiknað eiginfjárhlutfall bankans skv. lögum um fjármálafyrirtæki var 17,5%, en má lægst vera 8%.

Lausafjárstaða bankans var mjög sterk í lok tímabilsins, en kröfur á Seðlabanka Íslands, eignir í íslenskum ríkistryggðum skuldabréfum og erlendum bankainnistæðum námu þá samtals 35 milljörðum króna. MP Banki jók innlán sín verulega á tímabilinu, úr 8.6 milljörðum króna í árslok 2008 í 31 milljarð króna.

Tap bankans á fyrri hluta ársins 2009 endurspeglar kostnað bankans af nýrri starfsemi og aðlögun að breyttum aðstæðum á íslenskum fjármálamarkaði. Rekstraraðstæður voru afar óhagstæðar á tímabilinu. Seðlabanki Íslands lækkaði innlánsvexti sína verulega niður í 9,5% sem leiddi til minnkandi vaxtatekna. Á sama tíma hélt Seðlabankinn útlánsvöxtum sínum háum, í lok tímabilsins voru þeir 12%, eða tveimur og hálfu prósentustigum hærri en innlánsvextirnir.

Þrátt fyrir mikinn vöxt innlána á tímabilinu minnkaði MP Banki útlán sín. Íslenskt efnahagslíf er ennþá í uppnámi eftir hrun Kaupþings, Landsbankans og Glitnis, síðastliðið haust. Þegar horfur í efnahagslífinu skýrast getur bankinn hafið útlán í verulegum mæli að nýju og þar með aukið arðsemi sína.

MP Banki varð stærsti miðlari og viðskiptavaki í Kauphöll Íslands með ríkistryggð skuldabréf á tímabilinu, sem er stór áfangi í sögu bankans. Afar mikilvægt er að við aðstæður mikils fjárlagahalla sem nú að íslenska ríkið eigi greiðan aðgang að fjármagni á hagstæðum kjörum. Fyrstu sex mánuði ársins var þessi starfsemi MP Banka rekin með nokkru tapi, en allar líkur eru á að hún skili aftur hagnaði þegar til lengri tíma er litið.

Gjaldeyrishöft takmörkuðu tekjumöguleika bankans verulega. Eftir fall bankanna þriggja hefur MP Banki ekki átt kost á gjaldeyrisvörnum til leiðréttingar á gjaldmiðlaáhættu sinni. MP Banki rekur útibú innan Evrópusambandsins í Vilnius í Litháen sem er með eignir í erlendum myntum sem ekki er nú hægt að verja. Bankinn greiddi upp öll útlán sín hjá erlendum aðilum að fullu á tímabilinu og tekur ekki við innlánum erlendis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×