Viðskipti innlent

Gjörningar gömlu bankanna riftanlegir tvö ár aftur í tímann

Fjármálagjörningar gömlu bankanna þriggja og annarra fjármálafyrirtækja sem tengjast bankahruninu fyrir ári síðan verða riftanlegir 2 ár aftur í tímann nái frumvarp Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra um málið fram að ganga.

Í núverandi gjaldþrotalögum er frestur til að rifta fjármálagjörningum í þrotabúum 6 mánuðir aftur í tímann og mun sá frestur gilda áfram hvað varðar almennan fyrirtækjarekstur. Hinum nýju lögum er ætlað að létta undir með vinnu slitastjórna gömlu bankanna.

„Við ákváðum að lengja þennan riftunarfrest í ljósi umfangs mála og vinnu slitastjórnanna," segir Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra. „Það er ljóst að fresturinn samkvæmt núverandi lögum er alltof stuttur í ljósi umfangsins."

Gylfi leggur áherslu á að ekki sé um breytingar á núverandi gjaldþrotalögum að ræða hvað önnur þrotabú en fjármálafyrirtækja varðar. Riftunarfresturinn þar verði eftir sem áður sex mánuðir aftur í tímann.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×