Viðskipti innlent

Innlend fyrirtæki skulda 4.600 milljarða hérlendis

Útistandandi lán íslenskra lánastofnana til innlendra fyrirtækja námu rúmlega 4.600 milljarðar kr. í lok júní í ár. Stærstu skuldunautar eru eignarhaldsfélög með um 39% af heildarútlánum.

Að eignarhaldsfélögum frátöldum eru þjónustufyrirtæki stærstu skuldunautarnir með tæp 26% af heildarútlánum til fyrirtækja. Útlán til sjávarútvegsfyrirtækja nema 11,5% og lán til fyrirtækja í verslun um 9%.

Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðuleiki 2009 sem Seðlabankinn birtir í dag. Upplýsingarnar eru samkvæmt upplýsingum sem Seðlabankinn fékk frá innlánsstofnunum í lok júní s.l.

Útlán til eignarhaldsfélaga höfðu fimmfaldast á þremur árum fram til bankahrunsins í septemberlok í fyrra. Um 70% lána til eignarhaldsfélaga eru gengisbundin, svipað og hlutfall gengisbundinna lána í heild.

Helmingur útlána til eignarhaldsfélaga eru hins vegar kúlulán sem er umtalsvert hærra en almennt gerist, u.þ.b. þriðjungur allra fyrirtækjalána eru kúlulán. Höfuðstóll 3% útistandandi lána til eignarhaldsfélaga hefur verið frystur.

Vanskil meðal eignarhaldsfélaga eru meiri en almennt gerist, eða 57%. Af þeim lánum sem eru í vanskilum eru 80% í alvarlegum vanskilum.Þessu til viðbótar hafa lán til eignarhaldsfélaga jafnan verið veitt til skamms tíma og falla 55% heildareftirstöðva í gjalddaga næstu tvö árin.

Rúmlega þriðjungur gengisbundinna lána er í evrum, rúmlega fimmtungur í svissneskum frönkum og tæplega fimmtungur í japönskum jenum. Gjaldmiðlasamsetning gengisbundinna lána fyrirtækja virðist því ólík samsetningu útflutningstekna. Lítill hluti útflutningstekna þjóðarinnar er í lágvaxtagjaldmiðlum á borð við japönsk jen og svissneska franka en stærstur hluti útflutningstekna er í evrum og Bandaríkjadölum.

Því er ljóst að þrátt fyrir að tekjur fyrirtækja séu í erlendum gjaldmiðlum geta lánasöfn þeirra verið viðkvæm fyrir innbyrðis gengishreyfingum helstu gjaldmiðla. Í einhverjum tilvikum gæti slík áhætta hafa verið varin með gerð framvirkra samninga en þar sem slíkir samningar eru nú í gömlu bönkunum og markaður með skiptasamninga hefur legið niðri um langt skeið er ljóst að um gengisáhættu getur verið að ræða.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×