Viðskipti innlent

Töluverður munur á tillögum OECD og stjórnvalda um útgjöldin

Töluvert ber í milli þegar kemur að tillögum OECD um niðurskurð og þeim áherslum sem lesa má úr fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á því sviði. OECD telur til að mynda svigrúm vera til verulegs niðurskurðar á útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála án þess að þessir málaflokkar þurfi að líða fyrir.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þessa skoðun sína byggir OECD á samanburði á gæðum opinberrar þjónustu og útgjöldum til málaflokkanna tveggja í aðildarlöndum OECD. Er það mat stofnunarinnar að hægt sé að minnka útgjöld til heilbrigðiskerfis um 17,5% og útgjöld til menntamála um fimmtung án þess að þjónustan versni að marki.

 

Í fjárlagafrumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að hlífa þessum málaflokkum meira en öðrum, og er samdráttur til menntastofnana sem annast kennslu 7% á milli ára en rekstur heilbrigðisstofnana er dreginn saman um 5%.

 

Þá mælir OECD með að opinberir háskólar hafi möguleika á að innleiða skólagjöld fremur en skerða þjónustu úr hófi, og að svigrúm til einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu verði aukið. Engar hugmyndir virðast hins vegar uppi um slíkar breytingar hjá núverandi ríkisstjórn.



OECD leggur til mikið aðhald í fjárfestingu hins opinbera, og að öllum fjárfestingum sem ekki eru bráðnauðsynlegar sé slegið á frest uns betur árar. Hér virðist ágætur samhljómur milli fjárlaga og stofnunarinnar, því stofnkostnaður og viðhald lækkar um ríflega 17 milljarða kr. milli ára í fjárlagafrumvarpinu.

 

Hins vegar virðist ríkisstjórnin lítt hafa hlustað á þá ábendingu OECD að núverandi ástand gefi gott færi á að skera niður við trog dýrt og óhagkvæmt styrkjakerfi. Horfir stofnunin þar sér í lagi til landbúnaðarstyrkja.

 

Framleiðendastyrkir til landbúnaðar hér á landi voru þeir hæstu á byggðu bóli árið 2007 að mati OECD, og ríflega tvöfalt hærri í hlutfalli við heildartekjur geirans en raunin var að jafnaði meðal landa ESB, svo dæmi sé tekið. Í fjárlagafrumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir óbreyttum greiðslum vegna búvöruframleiðslu á milli ára, samtals 10,8 milljörðum kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×