Viðskipti innlent

Skulda Straumi rúma 9 milljarða vegna landakaupa á Spáni

Fasteignafélag, í eigu Róberts Wessman og Björgólfs Thors Björgólfssonar, skuldar Straumi rúma 9 milljarða vegna landakaupa á La Manga á Spáni. Óvíst er hvort gengið verði að persónulegum veðum sem hlaupa á milljörðum íslenskra króna.

Róbert Wessman og Björgólfur Thor Björgólfsson keyptu fyrir fáeinum árum í gegnum félag sitt, AB Capital, allt byggingarland í kringum La Manga klúbbinn á suður Spáni og hugðust byggja þar. Stuttu eftir að gengið hafði verið frá kaupunum kom upp spillingarmál í tengslum við veitingu á byggingarleyfum. Eftir það hafa engin byggingarleyfi verið gefin út á þessu svæði og áætlanir þeirra félaga frestuðust því.

Í samtali við fréttastofu í mars sl. sagði Róbert að samningur hefði náðst milli AB Capital og La Manga klúbbsins sem fól í sér að klúbburinn myndi sjá um byggingarleyfi og heildarskipulag á byggingarsvæðinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki enn búið að ganga frá þessum samningi. Kaupin á landinu voru fjármögnuð með lánum frá Landsbankanum, Glitni og Straumi.

Samkvæmt uppgjöri Straums frá fjórða ársfjórðungi síðasta árs má sjá að bankinn lánaði 53 milljónir evra til verkefna á Spáni, eða rúman 9,5 milljarð íslenskra króna. Eftir því sem fréttastofa kemst næst var verkefni þeirra Róberts og Björgólfs það eina sem bankinn fjármagnaði á Spáni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu nemur persónuleg ábyrgð Róberts 33 milljónum evra eða tæpum 6 milljörðum íslenskra króna hjá bankanum. Ekki fengust upplýsingar um hvort Björgólfur Thor er í persónulegri ábyrgð fyrir láninu og þá hversu há hún er. Hjá Salt Investment, félagi í eigu Róberts, fengust þær upplýsingar að óvissa ríki um hvað verður um lánin og hvort gengið verði að persónulegum ábyrgðum Róberts. Engar upplýsingar fengust um málið frá skilanefnd Straums aðrar en þær að verið sé að vinna að því að ná sem mestum verðmætum út úr kröfunum sem bankinn á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×