Innlent

Vegfarendur björguðu nautgripum og kindum úr brennandi fjárhúsi

Tveir eldsvoðar urðu í síðustu viku á Vestfjörðum sanmkvæmt lögregunni. Á þriðjudeginum 8. desember kom upp eldur á bænum Neðri-Tungu í Örlygshöfn, þar var eldur í verkstæðisskúr og gömlu mjólkurhúsi. Húsin eru sambyggð hlöðu, fjósi og fjárhúsi.

Vegfarendur sem leið áttu um náðu að bjarga út úr gripahúsunum nokkrum nautgripum og kindum sem þar voru.

Slökkviliðið í Vesturbyggð ásamt björgunarsveit var kallað á vettvang og gekk greiðlega að slökkva, en mestur eldur var í verkstæðinu og mjólkurhúsinu, hlaðan og gripahúsið sluppu. Minniháttar skemmdir urðu á þeim. Eldsupptök eru ókunn, en málið í rannsókn lögreglu.

Það var svo aðfaranótt sunnudagsins 13. desember sem var tilkynnt um eld í ruslatunnu við Fjarðarstræti á Ísafirði.

Lögregla og slökkvilið kallað á staðinn og var eldur kominn í klæðningu á húsi og mátti litlu muna að ekki yrði stór tjón vegna þessa.

Málið er í rannsókn lögreglu.

Ef einhver getur gefið upplýsingar um grunsamlegar mannaferðir við Fjarðarstræti 57, eða nágrenni, aðfaranótt sunnudagsins, þá vinsamlegast hafið samband við lögregluna á Vestfjörðum, Ísafirði, sími 450-3730.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×