Viðskipti innlent

Rotið eðli bankanna að koma í ljós

Tæpu ári eftir hrun íslensku bankanna er rotið eðli þeirra smátt og smátt að koma í ljós, segir í grein í breska blaðinu Telegraph. Greinin birtist á vef Telegraph í gærkvöldi og ber yfirskriftina: Hvaða ljótu leyndarmál bíða uppljóstrunar eftir bankahrunið á Íslandi?

Þar segir að nú hafi komið í ljós að hrun íslensku bankanna sé ekkert venjulegt hrun. Rannsókn standi nú yfir á Íslandi og víðar á því hvort refsivert athæfi hafi viðgengist í bönkunum þremur. Svo mánuðum skipti hafi verið uppi orðrómur um markaðsmisnotkun, óeðlilegar lánveitingar til eigenda og fjármagnsflutninga í skattaskjól. Þá er minnt á að við hrun bankanna hafi 300 þúsund breskir sparifjáreigendur staðið frammi fyrir því að geta ekki nálgast fé sitt. Breska fjármálaráðuneytið hafi neyðst til þess að greiða 7,5 milljarða punda til breskra sparifjáreigenda sem áttu innistæður á Icesave reikningum Landsbankans og Edge reikningum Kaupþings.

Í greininni er vísað til orða Evu Joly um að rannsóknin verði væntanlega sú viðamesta í sögunni hvað varðar bankahrun og efnahagshrun.

Þá segir í grein Telegraph að mörg leyndarmál bankanna eigi væntanlega eftir að reynast mörgum erfitt með að skilja og að eltingarleikurinn við eignir snerti mörg heimili Í Bretlandi. Fjallað er um tap breskra sveitarfélaga á íslenska bankahruninu og áhrifin sem það hefur á stöðu sveitarfélaganna og þjónustuna sem þau geta boðið íbúum sínum á næstu árum.

Einnig er fjallað um lekann á lánabók Kaupþings og veldi Bakkavarabræðra, Lýðs og Ágústs. Þá er vikið að kaupum Al Thani á hlut í Kaupþingi síðasta haust og þau viðskipti sögð myrk.

Greinina er hægt að sjá hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×