Erlent

Landnám Ísraela ógnar friðarferli

Hús tekið Palestínsk kona horfir á ísraelskan landtökumann bera eigur palestínskrar fjölskyldu út úr húsi í Austur-Jerúsalem í byrjun mánaðarins þegar ísraelsk fjölskylda tók yfir hús í hverfi araba. Fréttablaðið/AP
Hús tekið Palestínsk kona horfir á ísraelskan landtökumann bera eigur palestínskrar fjölskyldu út úr húsi í Austur-Jerúsalem í byrjun mánaðarins þegar ísraelsk fjölskylda tók yfir hús í hverfi araba. Fréttablaðið/AP

Byggðar verða nærri 700 nýjar íbúðir í Austur-Jerúsalem samkvæmt ákvörðun sem Ísraelsstjórn kynnti í gær.

Ákvörðunin hefur sætt harðri gagnrýni Palestínumanna og frá Bandaríkjunum sem hafa fordæmt áætlunina og sagt hana stein í götu friðarferlis á svæðinu.

Deilan um yfirráð yfir Austur-Jerúsalem er einhver sú harðasta í átökum Ísraela og Palestínumanna.

Palestínumenn segja Austur-Jerúsalem vera höfuðborg framtíðarríkis þeirra og líta á byggðir Ísraela þar sem landtökubyggðir. Ísrael segir borgina alla höfuðborg þeirra að eilífu.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, tilkynnti fyrir nokkrum vikum að hægt yrði á landtöku á Vesturbakkanum í von um að fá Palestínumenn aftur að viðræðuborðinu. Tilskipunin náði hins vegar ekki til Austur-Jerúsalems, en þar er að finna helga staði jafnt gyðinga, múslima og kristinna manna.

„Við gerum greinarmun á Vesturbakkanum og Jerúsalem. Jerúsalem er höfuðborg okkar og verður það áfram,“ segir Mark Regev, talsmaður Ísraelsstjórnar.

Húsnæðisráðuneyti landsins segist hafa heimilað byggingu 692 nýrra íbúða í þremur hverfum Ísraela þar sem þegar búi tugir þúsunda fólks.

Ísrael hertók austurhluta Jerúsalem árið 1967 og innlimaði þegar í ríki sitt. Innlimunin hefur ekki hlotið viðurkenningu alþjóðasamfélagsins.

„Við fordæmum áframhaldandi landtökustefnu Ísraels og vonum að þetta verði til þess að opna augu Bandaríkjastjórnar og annarra stjórnvalda heims fyrir vandanum,“ segir Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínustjórnar.

Palestínumenn hafa neitað að hefja aftur friðarviðræður, sem hættu fyrir ári þegar Ísraelsher réðst inn í Gasaborg, fyrr en Netanjahú stöðvar uppbyggingu landtökubyggða á Vesturbakkanum og í Jerúsalem.

Bandaríkjastjórn hefur mánuðum saman reynt að koma viðræðum aftur af stað.

Nafnlaus heimildarmaður í stjórnkerfi Ísrael segir að Bandaríkjunum hafi verið kynnt áformin um nýju byggðirnar.

Heimildarmaður innan bandaríska stjórnkerfisins segir ákvörðunina hins vegar áfall fyrir friðarferlið og kvað einhliða aðgerðir sem þessar flækja vandann og draga úr líkum á því að friðarviðræður geti hafist að nýju.

Formlegra viðbragða er enn beðið frá Washington.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×