Viðskipti innlent

Kröfum ríkisins í Sparisjóðabankann ekki hafnað

Berglind Svavarsdóttir
Berglind Svavarsdóttir

Kröfur í þrotabú Sparisjóðabankans, áður Icebank, nema samtals 368 milljörðum króna. Þær eru 242 talsins. Þetta kom fram í fréttum RÚV í gær. Kröfur upp á 81 milljarð hafa verið samþykktar.

Langstærstu kröfuna gerir ríkissjóður Íslands, eða rúmlega 200 milljarða. Þá gerir Seðlabanki Íslands kröfu upp á um 24 milljarða. Megnið af þessum upphæðum eru tilkomnar vegna endurhverfra viðskipta Icebank við Seðlabankann.

Í fréttum RÚV sagði að slitastjórn hefði þegar hafnað þessum kröfum ríkisins. Berglind Svavarsdóttir, sem situr í slitastjórninni, segir það hins vegar alls ekki rétt. Kröfurnar séu skráðar þannig að þeim hafi verið hafnað að svo stöddu, en það þýði í raun að engin afstaða hafi verið tekin til þeirra enn. Búið er að taka afstöðu til um helmings krafnanna 242.

Fjármálaeftirlitið gerir 26 milljóna kröfu í búið vegna starfa skilanefndar bankans. Þeirri kröfu hefur verið hafnað. Berglind segir að þegar neyðarlögin voru sett í fyrrahaust hafi verið kveðið á um það að kostnaður við skilanefndir félli á ríkið. Því hafi svo verið breytt, en sú breyting væri ekki afturvirk. Mat slitastjórnarinnar sé því að kostnaður við störf skilanefndarinnar fram að lagabreytingunni skuli ekki greiðast úr þrotabúinu.- sh








Fleiri fréttir

Sjá meira


×