Erlent

Tugir taldir vera í leynifangelsum

Rauði krossinn hefur ekki enn viljað staðfesta að hann hafi fengið upplýsingarnar frá varnarmálaráðuneytinu.fréttablaðið/ap
Rauði krossinn hefur ekki enn viljað staðfesta að hann hafi fengið upplýsingarnar frá varnarmálaráðuneytinu.fréttablaðið/ap

Bandaríski herinn hefur byrjað að gefa Rauða krossinum upp nöfn fanga í leynifangelsum í Írak og Afganistan. Fangarnir eru allir grunaðir um að tengjast hryðjuverkasamtökum en Rauði krossinn hefur þrýst lengi á varnarmálaráðuneyti Banda­ríkjanna um að fá þessar upplýsingar.

Þetta kemur allt fram í ónafngreindum heimildum erlendra fjölmiðla í gær. Hafa mannréttindasamtök lýst því yfir að ef rétt reynist sé þetta mikill sigur fyrir mannréttindabaráttu.

Tugir af grunuðum hryðjuverkamönnum í Írak og Afganistan eru í þessum svokölluðu „tímabundnu fangabúðum“ sem eru undir stjórn bandaríska hersins. Eru fangabúðirnar á leynistöðum rétt fyrir utan borgirnar Balad í Írak og Bagram í Afganistan.

Rauði krossinn hefur ekki enn viljað staðfesta að samtökin hafi fengið upplýsingarnar um fangana og segir öll mál af þessu tagi trúnaðarmál. Hin nýlega stefnubreyting varnarmálaráðuneytisins í upplýsinga­gjöf er hluti af stefnu ríkisstjórnar Baracks Obama.- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×