Innlent

Regnvatn leitt inn á vatnsverndarsvæði

hólmsá Samkvæmt tillögunum á að veita ofanvatni af iðnaðarsvæði í settjarnir þar sem það verður hreinsað og leitt þaðan út í Hólmsá.fréttablaðið/valli
hólmsá Samkvæmt tillögunum á að veita ofanvatni af iðnaðarsvæði í settjarnir þar sem það verður hreinsað og leitt þaðan út í Hólmsá.fréttablaðið/valli

Vatni af götum fyrir­hugaðs iðnaðarhverfis á Hólmsheiði verður veitt úr settjörnum í Hólmsá, samkvæmt deiliskipulagsbreytingu sem nú er í kynningu. Hólmsáin rennur í Elliðavatn og vatnið berst með Elliðaám til sjávar.

Framkvæmdastjórn um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu telur þetta ekki vænlegasta umhverfiskostinn, en slíkt er gefið í skyn í greinargerð með tillögunni. Bent er á að Hólmsá hefur verið vöktuð á árinu 2009 og niðurstöður mælinga benda til að hún uppfylli skilyrði A-flokks, sem þýðir ósnortið vatn. Stefnt sé að því að halda þeim flokki. Hólmsheiðin er á fjarsvæði B innan vatnsverndar­svæðis.

Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, situr í framkvæmdastjórninni. Hann segir að verið sé að losa ofanvatn, hugsanlega mengað, frá fjarsvæði vatnsverndarsvæðis inn á grannsvæði.

„Með þessu er verið að auka hættuna á mengun og eðlilegt er að framkvæmdastjórnin vilji láta skoða aðra kosti, eins og Rauðavatn. Það hefur ekki verið skoðað.“ Í bókun framkvæmdastjórnarinnar frá því í apríl er einmitt bent á nauðsyn þess að skoða aðrar lausnir af alvöru, til dæmis að losa í Rauðavatn sem er utan vatnsverndarsvæðisins.

Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Reykjavíkur, segir þá lausn sem lögð sé til ekki endilega vera þá heppilegustu. Vel megi gera sér í hugarlund að mörk vatnsverndarsvæða breytist í framtíðinni og þá gæti Hólmsheiðin staðið utan vatnsverndarsvæða. Þá sé óheppilegt að búa við kerfi sem veiti ofanvatni af iðnaðarhverfi utan vatnsverndar og inn á vatnsverndarsvæði.

Gísli Marteinn segir málið hafa verið á borði heilbrigðisnefndar og skipulagið hafi verið unnið í góðri samvinnu við Heilbrigðiseftirlit og þá sem sinni vatnsvernd á svæðinu. Gísli segir ekki útilokað að aðrir kostir verði skoðaðir. „Heilbrigðiseftirlitið hefur hvatt menn til að nýta tímann sem kreppan gefur okkur, áður en þessu verður endanlega lokað, og skoða hvort fara megi aðrar leiðir með vatnið.“kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×