Viðskipti innlent

Opnun útibúa SPRON frestast

Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP Banka.
Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP Banka.
MP Banki mun ekki geta opnað á ný þrjú útibú SPRON á mánudag eftir helgi eins og stefnt var að þegar gengið var frá samkomulagi við skilanefnd SPRON um kaup MP Banka á Netbankanum og útibúaneti SPRON. Ekki er hægt að tilgreina nýja opnunar dagsetningu á þessari stundu.

Samkomulagið um kaup MP Banka á útibúaneti SPRON er gert með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlits. Samkeppniseftirlitið hefur þegar veitt MP Banka undanþágu til að hefja starfsemi áður en eftirlitið fjallar endanlega um kaupin en þar sem samþykki Fjármálaeftirlitsins liggur enn ekki fyrir er ljóst að ekki mun takast að opna útibú SPRON eins fljótt og vonir stóðu til, að fram kemur í tilkynningu.

Fram kemur í tilkynningunni að starfsfólk MP Banka hefur orðið vart við mikinn áhuga meðal starfsmanna og viðskiptavina SPRON á fyrirhugaðri enduropnun útibúanna við Skólavörðustíg, á Seltjarnarnesi og í Borgartúni. „Við hörmum þau óþægindi sem töf á afgreiðslu þessa máls veldur viðskiptavinum og þeirri óvissu sem starfsmenn SPRON þurfa enn að búa við. "

Ekki er hægt að tilgreina nýja opnunar dagsetningu á þessari stundu en ljóst er að það mun taka starfsfólk MP Banka og SPRON nokkra daga að undirbúa opnun útibúanna á nýjan leik eftir að samþykki Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir. Lögð verður áhersla á að hraða þeirri vinnu eins og frekast er unnt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×