Viðskipti innlent

Vill reka þá forstjóra lífeyrissjóða sem brotið hafa af sér

Stjórn VM fagnar þeirri umræðu sem komin er af stað vegna bréfs stjórnarinnar til lífeyrissjóðanna. Stjórnin vill að þeir sem sannarlega hafa brotið af sér verði látnir sæta ábyrgð og látnir víkja.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi stjórnar VM (Félag vélstjóra og málmtæknimanna) segir að stjórnin telji að umræðan hafi verið löngu tímabær til að hreinsa andrúmsloftið vegna ásakana á stjórnendur sjóðanna en vill undirstrika að faglega verði tekið á málunum.

 

Stjórn VM vill að verkalýðshreyfingin taki á þessu af festu og marki sér stefnu um hvernig tekið verði á því að gera fortíðina upp. Stjórnin telur að vegna þess í hvaða farveg málin eru komin þurfi ekki að kalla eftir meiri sundurliðun í svörum sjóðanna. Hún leggur traust sitt á að málin verði leyst innan stjórna sjóðanna, nýjar siðareglur og verkferlar teknir upp. Ekki megi gleyma í umræðunni ábyrgð Samtaka atvinnulífsins á rekstri sjóðanna.

 

Stjórnin vill leggja áherslu á að umræðan hefur farið út í það að setja alla stjórnendur sjóðanna undir sama hatt, þar á meðal einstaklinga sem sannarlega hafa staðið sig og eiga erfitt með að losna undan ásökunum.

Engu að síður vill hún að þeir sem sannarlega hafa brotið af sér verði látnir sæta ábyrgð og látnir víkja. Alþjóðlegar siðareglur á þessum vettvangi hafa lengi verið til og það áttu viðkomandi einstaklingar að gera sér grein fyrir með þá miklu ábyrgð sem þeir höfðu.

 

Stjórnin vill einnig undirstrika að þó að mistök hafi átt sér stað hjá einstökum stjórnendum sjóðanna, megi ekki blanda því saman við lífeyrissjóðakerfið í heild sinni, sem hefur fengið þá úttekt að vera eitt besta lífeyrissjóðakerfi í heimi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×