Viðskipti innlent

Spá því að viðskiptahallinn verði sex sinnum minni en í fyrra

Halli verður á viðskiptum við útlönd í ár upp á 6,8% af landsframleiðslu samkvæmt nýjustu spá Seðlabankans. Þetta er um 95 milljarðar kr. en til samanburðar var ríflega 625 milljarða kr. halli á viðskiptum við útlönd í fyrra, eða 43% af landsframleiðslu sem var sögulegt met hér á landi.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að verulega miklar breytingar eru því að eiga sér stað í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar um þessar mundir og hagkerfið þannig að þróast í átt til betra ytra jafnvægis.

Ríflega 49 milljarða kr. viðskiptahalli var á fyrsta ársfjórðungi í ár og skilaði sér þannig á einum ársfjórðungi ríflega helmingur af spáðum viðskiptahalla ársins. Í dag mun Seðlabankinn birta tölur fyrir annan ársfjórðung.

Vitað er að tæplega 26 milljarða kr. afgangur var á vöru- og þjónustujöfnuði á ársfjórðunginum en þáttajöfnuðurinn er enn óljós. Afgangur var einnig á vöru- og þjónustujöfnuði á fyrsta ársfjórðungi og þá upp á tæplega 12 milljarða kr., en halli upp á ríflega 59 milljarða kr. á þáttajöfnuði gerði viðskipajöfnuðinn neikvæðan.

Líklega hefur staðan verið með viðlíka hætti á öðrum ársfjórðungi en breytingin sú að meiri afgangur var þá af vöru- og þjónustuviðskiptum og sennilega minni halli á þáttajöfnuði m.a. vegna hagfelldari þróunar á erlendum mörkuðum. Reikna má með því að halli hafi verið á viðskiptum við útlönd á fjórðunginum en að hann hafi verið mun minni en á fyrsta fjórðungi. Reiknum við með því að hallinn verði um 20-30 milljarða kr. en þeirri spá verður að taka með miklum fyrirvara vegna afar mikillar óvissu um þróun þáttajafnaðarins.

Seðlabankinn spáir því að afgangur verði á næsta ári á viðskiptum við útlönd og að sá afgangur verði tæplega 2% af landsframleiðslu. Stofnunin spáir síðan tæplega 4% afgangi á árinu 2011. Vaxandi afgangur af erlendum viðskiptum er kærkomin breyting á þeirri erlendu skuldasöfnun sem hér hefur verið á síðastliðnum árum.

Einungis tvisvar á síðustu 15 árum hefur verið afgangur á viðskiptum við útlönd og aldrei á þessu tímabili meiri en 1,5% af landsframleiðslu, en það var í niðursveiflunni í upphafi þessa áratugar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×