Viðskipti innlent

RARIK tapaði 164 milljónum á fyrri helming ársins

Samkvæmt rekstrarreikningi nam tap RARIK á fyrstu sex mánuðum ársins 164 milljónum króna. Rekstrarhagnaður varð fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta upp á 1.166 milljónir króna eða 28,1% af veltu tímabilsins, samanborið við 782 milljónir eða 21,4% af veltu á sama tímabili árið áður. Hreint veltufé frá rekstri var 1.169 milljónir króna.

Í tilkynningu segir að rekstrarafkoman var mun betri en á fyrri hluta ársins 2008. Rekstrartekjur hækkuðu um rúmlega 13,7% frá fyrra ári, en rekstrargjöld með afskriftum um rúmlega 6,6% og var regluleg starfsemi fyrirtækisins í samræmi við áætlanir. Afskriftir hækka milli tímabila um 102 milljónir kr. vegna endurmats eigna í lok árs 2008.

Fjármagnsgjöld voru mun hærri á tímabilinu en áætlanir gerðu ráð fyrir og voru 875 milljónir króna en voru á sama tímabili árið áður 2.280 milljónir króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi 30. júní 2009 voru heildareignir RARIK 32 milljarðar kr. og heildarskuldir námu 18,3 milljörðum kr. Eigið fé var 13,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 43,0%.

Í tilkynningunni segir að horfur í rekstri RARIK á árinu 2009 eru traustar, en afkoman á næstu tímabilum ræðst hins vegar að verulegu leyti af stöðu gengis krónunnar og verðlagsþróun.

Gengi krónunnar hefur veikst það sem af er ári en vextir erlendra lána hafa lækkað og má gera ráð fyrir að sú lækkun haldist a.m.k. út árið. Gert hefur verið ráð fyrir samdrætti í orkusölu og því hefur verið gripið til ráðstafana til að draga úr fjárfestingum í dreifikerfum og almennum rekstrarkostnaði.

Ef gengi krónunnar styrkist ekki, eins og gert var ráð fyrir í áætlunum fyrir árið 2009, má búast við að rekstur félagsins verði í járnum á síðari hluta ársins og árið í heild gert upp með tapi sem skýrist fyrst og fremst af fjármagnsliðum.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×