Viðskipti innlent

Lokun Landsbankans í Bretlandi vofði yfir í ágúst 2008

Æðstráðendur Landsbankans. Björgólfur Guðmundsson bankaráðsformaður, Halldór J. Kristjánsson bankastjóri, Kjartan Gunnarsson, varaformaður bankaráðs, og Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri. fréttablaðið/hari
Æðstráðendur Landsbankans. Björgólfur Guðmundsson bankaráðsformaður, Halldór J. Kristjánsson bankastjóri, Kjartan Gunnarsson, varaformaður bankaráðs, og Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri. fréttablaðið/hari

Breska fjármálaeftirlitið (FSA) gerði Landsbankanum ljóst í bréfi hinn 15. ágúst í fyrra að innlánastarfsemi hans í Bretlandi yrði stöðvuð ef ekki yrði farið að kröfum þess.

Þetta kemur fram í bókinni Umsátrið – fall Íslands og endurreisn eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins.

Vitnað er til bréfaskipta FSA, Landsbankans og íslenskra yfirvalda um málið en kröfurnar snerust um færslu innlánanna [Icesave-reikningana] í dótturfélagið Heritable í Bretlandi og þar með undir hatt breska tryggingasjóðsins.

Í bókinni segir: „Ljóst er af þessum bréfaskiptum, að rekstur Landsbankans, hefur verið kominn í uppnám um miðjan ágúst 2008 og raunar fyrr og í kjölfarið fara fram umræður innan stjórnkerfisins um það, hvernig bregðast eigi við, fari allt á versta veg, og jafnvel kvikna hugmyndir um, að ríkið yfirtaki rekstur bankans.“ Þá kemur fram að Landsbankinn virðist hafa farið fram á lánafyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands upp á 2,5 milljarða sterlingspunda til að geta staðið undir yfirfærslunni. Til tryggingar hafi bankinn viljað setja lánasafn sitt auk þess sem hann óskaði þess að fyrirgreiðslan yrði ekki gerð opinber. Lánið átti að vera ótímabundið þangað til alþjóðlegir fjármálamarkaðir opnuðust að nýju fyrir íslensku bankana.

Fjárhæðin, 2,5 milljarðar punda, nam á þeim tíma 386 milljörðum króna. Hún nam þriðjungi af landsframleiðslu Íslendinga og var tvöfalt hærri en markaðsvirði Landsbankans á þessum tíma.

Segir Styrmir í bókinni að með slíkri lánafyrirgreiðslu Seðlabankans hafi Landsbankinn talið sig geta mætt kröfum FSA og komið í veg fyrir að það gripi til aðgerða sem leiddu til þess að hann færi í þrot. Hins vegar hafi engan veginn verið ljóst hvort þetta myndi tryggja rekstur bankans til frambúðar.

Ekkert varð af lánveitingunni. Þrennt er nefnt til sögunnar. Álitamál var hvort verjandi væri fyrir Seðlabankann að taka lánasafn Landsbankans að veði fyrir svo hárri fjárhæð. Spurning var hvort verjandi væri að halda fyrirgreiðslunni leyndri – en opinberun hennar hefði líklega kostað áhlaup á bankann. Og loks voru tormerki á möguleikum Seðlabankans til að veita slíka fyrirgreiðslu ótímabundið.

bjorn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×