Viðskipti innlent

Neysluútgjöld heimilanna hækkuðu um 7,5%

Neysluútgjöld á heimili árin 2006-2008 hafa hækkað um 7,5% frá tímabilinu 2005-2007 og voru þau um 426 þúsund krónur á mánuði, eða 178 þúsund krónur á mann. Á sama tíma hefur meðalstærð heimilis minnkað lítillega, úr 2,40 einstaklingum í 2,39 og hafa útgjöld á mann því hækkað um 8,2%.

 

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar en gefin hafa verið út Hagtíðindi með niðurstöðum úr rannsókn á útgjöldum heimilanna árin 2006-2008. Niðurstöður eru sundurliðaðar eftir búsetu, heimilisgerð, tekju- og útgjaldahópum. Heildarniðurstöður eru bornar saman við útgjaldarannsóknina 2005-2007.

Í Hagtíðindunum segir að ráðstöfunartekjur meðalheimilisins í rannsókninni voru rúmar 470 þúsund krónur á mánuði, um 197 þúsund krónur á mann. Ráðstöfunartekjur flestra hópa voru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin voru að meðaltali um 90% af ráðstöfunartekjum.

Vísbendingar eru um töluverðan samdrátt neysluútgjalda í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 eða um 17% að raungildi frá lokaársfjórðungi ársins 2007 til sama tímabils árið 2008 og um 12% ef bílakaup heimilanna eru undanskilin.

 

Í úrtaki voru 3.504 heimili, 1.728 þeirra tóku þátt í rannsókninni og var svörun því tæp 50%










Fleiri fréttir

Sjá meira


×