Erlent

Sprengjuvargur ákærður

Umar Farouk Abdulmutallab.
Umar Farouk Abdulmutallab.

Umar Farouk Abdulmutallab hefur formlega verið ákærður fyrir að reyna að tortíma farþegaflugvél og farþegum Delta flugfélagsins skömmu fyrir lendingu í Detroit í Bandaríkjunum á jóladag.

Faðir hans hafði varað bandarísku alríkislögregluna við syni sínum fyrir mánuði en hann hafði áhyggjur á öfgafullum trúarskoðunum sonar síns.

Haft er eftir fulltrúa lögreglu í Detroit að Abdulmutallab hafi sagst hafa fengið þjálfun til hryðjuverka í búðum al-Qaida í Jemen.

Í ákærunni gegn honum er hann sakaður um að hafa vísvitandi ætlað að tortíma þotunni. Dómari las yfir honum ákæruna í fundarherbergi á Háskólasjúkrahúsinu í Ann Arbor í Michigan, þar sem læknar meðhöndla annars og þriðja stigs brunasár sem hann hlaut þegar hann reyndi að sprengja þotuna í loft upp.

Aukið öryggiseftirlit í tengslum við flug til Bandaríkjanna vegna tilræðisins, hefur valdið töfum á flugi þangað í gær og í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×