Viðskipti innlent

Nýr áfangastaður Iceland Express

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Mynd/GVA
Iceland Express ætlar að hefja áætlunarflug til Birmingham á Bretlandi næsta sumar. Birmingham er næststærsta borg Bretlands og er staðsett fyrir norðan London.

Um tvær og hálf milljón manna búa í Birmingham og næsta nágrenni. Borgir eins og Leicester, Derby og Wolverhampton eru ekki langt frá Birmingham og aðeins er um tveggja og hálfrar klukkustundar akstur til hins þekkta háskólabæjar Oxford.

Fyrst um sinn er gert ráð fyrir vikulegu flugi til Birmingham.

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir í viðtali við Vísi að hér sé um að ræða markaðssvæði sem inniheldur margar milljónir manna og því ljóst að tækifæri felist í áætlunarfluginu.

„Það er ljóst á viðbrögðum Breta að þeir hafa mikinn áhuga á þessari fyrirætlun okkar og því efumst við ekki um að flug til Birmingham verði afar vinsæll áfangastaður. Það rignir inn tölvupóstum frá Bretlandi þannig að þeir virðast vera spenntir yfir þessari nýjung. Þetta er auk þess skemmtileg tilbreyting fyrir Íslendinga," segir Matthías.

Matthías lætur í ljós undrun sína á aðgerðum íslenskra stjórnvalda en hann segir erlenda samstarfsaðila Iceland Express, auk íslensku ferðaþjónustunnar kvarta mikið yfir því að stjórnvöld séu hætt að markaðssetja landið.

Í dag er London eini áfangastaður Iceland Express á Bretlandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×