Erlent

Legið með Marylin til eilífðarnóns

Fyrir 590 milljónir króna getur maður legið fyrir ofan Marylin Monroe til eilífðarnóns. Kynbomban Marylin Monroe er grafin í Westwood kirkjugarðinum í Los Angeles í eins konar grafhýsi þar sem kistum hinna látnu er komið fyrir í skápum hver ofan á annari.

Skápurinn fyrir ofan Marylin var að losna og var plássið auglýst á Ebay með þeim orðum að nú væri hægt að eyða eilífðinni beint fyrir ofan Marylin Monroe.

Það var eiginkona mannsins sem hingað til hefur hvílt ofan á kynbombunni sem ákvað að koma honum fyrir annars staðar þar sem hún hafði ekki lengur efni á að borga af húsinu sínu í Hollywood.

Hún ætti að hafa efni á því núna þar sem plássið seldist á tæpar 700 milljónir íslenskra króna. Eiginmaðurinn sem lést fyrir 23 árum hafði keypt plássið af fyrrverandi eiginmanni Monroe, hafnarboltahetjunni Joe DiMaggio.

Ekki hefur verið gefið upp hver reiddi út slíka fjárhæð fyrir legstaðinn og raunar virðist vera komið babb í bátinn en sá sem átti hæsta boðið reynir nú að draga tilboð sitt til baka og hefur greinilega fengið bakþanka yfir þessum fjárútlátum.

Playboykóngurinn Hugh Hefner tryggði sér hins vegar pláss við hlið Monroe árið 1992 og þá fyrir margfalt lægri upphæð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×