Viðskipti innlent

Lán frá ESB í athugun hjá ráðuneyti og Seðlabankanum

Rætt hefur verið um að sérstök lánafyrirgreiða standi Íslandi til boða af hálfu ESB. Er það mál nú í athugun hjá fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum. Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Önnu Margrétar Guðjónsdóttur þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi.

Anna Margrét spurði fjármálaráðherra hvort hann hefði látið kanna hvort mögulegt er að fá lán hjá fjármálastofnunum Evrópusambandsins, svo sem Fjárfestingarbanka Evrópu, þegar formlegri stöðu aðildarviðræðuríkis gagnvart sambandinu er náð og ef svo er, hvaða kostir og kjör bjóðast á slíku láni?

Einnig var spurt að ef þetta hefur ekki verið kannað, hyggst ráðherra láta gera það?

„Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) veitir eingöngu lán til fjárfestingarverkefna og hefur bankinn lánað til fjölmargra verkefna hér á landi á sl. árum. Meðal lántakenda eru Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja. Nefna má að lánasamningur að fjárhæð 170 milljónir evra var undirritaður á milli EIB og Orkuveitu Reykjavíkur í nóvember sl. Sérstakt samkomulag er milli EFTA-ríkjanna og EIB um lánaramma fyrir lánveitingar til þeirra," segir í svarinu.

„Sá lánarammi var nýlega endurnýjaður og gildir til ársloka 2013 og svara ætlaðar lánveitingar til 3,3 milljarða evra fyrir EFTA-ríkin öll. Ekki hefur komið til álita að leita eftir almennri lánafyrirgreiðslu frá EIB gagnvart ríkissjóði, en lánveitingar bankans eru ýmist verkefnabundnar eða felast í lánalínum til banka eða annarra fjármálastofnana.

Evrópusambandið hefur boðið nokkrum ríkjum sem sótt hafa um aðild að sambandinu og öðrum nágrannaríkjum sérstaka lánafyrirgreiðslu sem alla jafna er veitt í tengslum við framkvæmd sérstakra efnahagsáætlana (e. macro-financial assistance). Lánin hafa einkum verið veitt til ríkja í Austur-Evrópu, landa við Miðjarðarhaf og ríkja á Balkanskaga. Rætt hefur verið um að slík lánafyrirgreiðsla standi íslenskum stjórnvöldum til boða og er það mál í athugun í fjármálaráðuneyti og Seðlabanka Íslands."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×