Viðskipti innlent

Útrásarvíkingur flutti tugi milljóna rétt fyrir hrun

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ólafur Ólafsson flutti margar milljónir rétt fyrir hrun. Mynd/ Anton Brink.
Ólafur Ólafsson flutti margar milljónir rétt fyrir hrun. Mynd/ Anton Brink.
Ólafur Ólafsson, sem kenndur er við Samskip, flutti tugmilljónir króna af innistæðureikningi sínum í Kaupþingi Lúxemborg aðeins nokkrum dögum áður en bankinn fór í þrot. Peningarna notaði Ólafur til að fjárfesta í ríkistryggðum verðbréfum en innistæður í íslenskum bönkum erlendis voru ekki tryggðar að fullu.

Ólafur Ólafsson, var einn af stærstu eigendum Kauþings en hann átti 10 prósenta hlut í bankanum áður en hann fór í þrot.

Fram kemur í DV í dag að Ólafur hafi flutt 40 milljónir króna af innistæðureikningi sínum í Kaupþingi Lúxemborg annan október á síðasta ári - fjórum dögum áður en bankinn fór í þrot - en peningana notaði Ólafur til að fjárfesta í ríkisskuldabréfum.

DV segist hafa undir höndum gögn sem sýna fram á þessar millifærslur.

Inneignir í íslenskum bönkum erlendis voru tryggðar upp að 20 þúsund evrum eða sem nemur þremur milljónum króna miðað við gengi krónunnar í byrjun október á síðasta ári. Ríkisskuldabréf eru hins vegar tryggð að fullu.

Þá kemur einnig fram í umfjöllun DV að Ólafur hafi einnig keypt íbúðabréf fyrir rúmar 46 milljónir króna 7. október - tveimur dögum áður en bankinn fór í þrot - en bréfin seldi hann hins vegar strax daginn eftir.

DV hefur eftir ónefndum verðbréfamiðlara að mikil aukning hafi orðið á sölu ríkstryggðra verðbréfa nokkrum dögum fyrir bankahrunið. Kaupendur hafi aðallega verið innistæðueigendur í Lúxemborg.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×