Viðskipti innlent

Hagar: Hagsmunir allra best tryggðir með lausn sem unnið er að

Í yfirlýsingu sem borist hefur fá Finni Árnasyni forstjóra Haga segir að hagsmunir félagsins, hagsmunir viðskiptavina, hagsmunir 2.500 starfsmanna og hagsmunir lánveitenda eru sameiginlegir og best tryggðir með þeirri lausn, sem nú er unnið að.

Yfirlýsingin í heild hljóðar svo: „Vegna umfjöllunar um málefni Haga þar sem ítrekað hefur verið farið rangt með staðreyndir er rétt að eftirfarandi komi fram:

Engar skuldir hafa verið afskrifaðar á Haga og ekki stendur til að afskrifa neinar skuldir á Haga. Hagar eru þvert á móti eina fyrirtæki landsins sem hefur á s.l. 18 mánuðum greitt upp að fullu með vöxtum skráðan skuldabréfaflokk, sem var meginhluti skulda félagsins. Hagar eru nú vel fjármagnað félag til langs tíma.

Nú er unnið að lausn á skuldum eignarhaldsfélagsins 1998, eiganda Haga. Þar er meginmarkmiðið að ekki komi til neinna afskrifta skulda, m.a. með því að erlendir fjárfestar leggi fram verulega fjármuni til félagsins í formi nýs hlutafjár. Umfjöllun eða fullyrðingar um annað eru einfaldlega rangar.

Líta verður á umfangsmikla umfjöllun Morgunblaðsins undanfarnar vikur, sem einstaka í sögu blaðamennsku. Sú umfjöllun verður ekki skilin öðruvísi en sem aðför að Högum og því starfsfólki sem þar starfar. Megininntakið í málflutningi blaðsins er að nauðsynlegt sé að Bónus starfi í framtíðinni án Jóhannesar í Bónus. Blaðið heldur því fram að hagsmunum félagsins sé best borgið með brotthvarfi stofnandans og frumkvöðulsins Jóhannesar í Bónus.

Þessu er ég, sem forstjóri Haga með öllu ósammála og deili ég þar skoðunum með stjórnendum og starfsfólki Haga.

Enginn hefur unnið betra starf í þágu landsmanna við að tryggja lágt vöruverð á Íslandi en Jóhannes í Bónus. Hann hefur barist fyrir lágu vöruverði og ekki síður að sama verð sé boðið í verslunum hans um allt land. Hann hefur verið frumkvöðull í hagræðingu, sem hefur skilað sér í lægra vöruverði til íslenskra heimila.

Jóhannes vinnur nú að lausn á málefnum eignarhaldsfélagsins með það að markmiði að ekki komi til neinna afskrifta skulda. Með því verður tryggt að Bónus verði áfram í forystu með að tryggja lágt vöruverð um land allt. Það er staðföst skoðun stjórnenda og starfsfólks að framangreindum markmiðum verði ekki náð án Jóhannesar. Hagsmunir félagsins, hagsmunir viðskiptavina, hagsmunir 2.500 starfsmanna og hagsmunir lánveitenda eru sameiginlegir og best tryggðir með þeirri lausn, sem nú er unnið að.

Með kveðju,

Finnur Árnason"










Fleiri fréttir

Sjá meira


×