Innlent

Meðlimur Al-Thani fjölskyldunnar yfirheyrður

Sérstakur saksóknari hefur nú yfirheyrt meðlim Al-Thani fjölskyldunnar í tengslum við rannsókn á meintum 26 milljarða sýndarviðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi, en það hefur reynst þrautin þyngri að fá vitnisburð þeirra. Þá hefur Fjármálaeftirlitið í Lúxemborg undir höndum skýringar á viðskiptunum frá sjeiknum í Katar.

Í lok september í fyrra var tilkynnt að fjárfestingafélag í eigu sjeiksins Bin Khalifa Al-Thani, hefði keypt 5 prósenta hlut í Kaupþingi. Félag í eigu Ólafs Ólafssonar, næststærsta hluthafa Kaupþings, lánaði Al-Thani helming kaupverðsins. Kaupþing hinn helminginn. Viðskiptin áttu sér stað í gegnum Lúxemborg.

Eftir bankahrunið hóf Fjármálaeftirlitið að rannsaka kaupin með grun um sýndarviðskipti og sendi málið í framhaldinu til sérstaks saksóknara í mars. Mikil leynd hefur hvílt yfir framvindu rannsóknarinnar en málið er með þeim stærri af meintum sakamálum bankahrunsins.

Húsleit var gerð á tíu stöðum í maí, meðal annars á heimilum fyrrverandi stjórnenda Kaupþings - þeir hafa réttarstöðu grunaðra ásamt fleirum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur sérstakur saksóknari nú yfirheyrt sjeikinn Sultan Bin Jassim Al-Thani, frænda Mohammed Bin-Khalifa. Bin-Jassim sat í stjórn félagsins sem keypti hlutabréfin. Ekki hefur tekist að fá vitnisburð Khalifa, en hann er yngri bróðir valdamesta manns í Katar og nýtur friðhelgi. Bin-Jassim mun ekki vera jafn hátt settur, en til vitnisburðar um það býr Bin-Khalifa í höll í smáríkinu en Bin Jassim í einbýlishúsi.

Þá hefur fréttastofa einnig heimildir fyrir því að Bin-Khalifa sjálfur hafi gefið Fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg skýringar á viðskiptunum og fært rök fyrir því að kaupin hans á hlutabréfum í Kaupþingi hafi ekki verið sýndarviðskipti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×