Viðskipti innlent

Gjaldþrot Baugs það stærsta hjá einkafyrirtæki hér á landi

Gjaldþrot Baugs er stærsta gjaldþrot einkafyrirtækis hér á landi. Kröfur í þrotabúið nema á þriðja hundrað milljörðum íslenskra króna.

Frestur til að lýsa kröfum í þrotabú Baugs rann út á miðnætti. Yfir eitthundrað kröfur eru gerðar í búið. Ekki er enn ljóst hversu háar heildarkröfurnar eru en sé miðað við þær upplýsingar sem koma fram í áætlun um endurskipulagningu Baugs frá því í haust, má ætla að kröfurnar í búið nema að minnsta kosti yfir tvö hundruð milljörðum króna.

Gjaldþrot Baugs yrði þá mesta gjaldþrot einkafyrirtækis hér á landi, að þroti bankanna frátöldu. Landsbankinn er stærsti kröfuhafinn og gera bæði gamli og nýi Landsbankinn kröfu í búið. Samanlagðar kröfur þeirra eru líklega ekki undir 100 milljörðum króna.

Í febrúar gekk gamli Landsbankinn að veðum vegna dótturfélaga Baugs í Bretlandi, en bankinn átti 1. veðrétt í eignum félagsins. Dótturfélögin áttu meðal annars stóra hluti í verslunarkeðjunni Iceland, House of Fraiser og leikfangaversluninni Hamleys.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×