Viðskipti innlent

Skráð atvinnuleysi var 7,6% í október

Skráð atvinnuleysi í október 2009 var 7,6% eða að meðaltali 12.682 manns og eykst atvinnuleysi um 4,4% að meðaltali frá september eða um 537 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1,9%, eða 3.106 manns.

Þetta kemur fram á vefsíðu Vinnumálastofnunnar. Þar segir að atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 12,4% en minnst á Norðurlandi vestra 2,2%. Atvinnuleysi eykst um 5% meðal karla en um 3,6% meðal kvenna. Atvinnuleysið er 8% meðal karla og 7% meðal kvenna.

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 7.352 og minnkar úr 7.397 í lok september og er um 51% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Þeir sem verið hafa atvinnulausir í meira en ár voru 1.700 í lok október en 1.024 í lok september.

Yfirleitt versnar atvinnuástandið frá október til nóvember. Þróun síðustu vikna bendir til að svo verði einnig raunin í ár, en erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í nóvember 2009 aukist og verði á bilinu 7,6%-8,1%. Í fyrra var atvinnuleysið 3,3% í nóvember.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×