Viðskipti innlent

Raungengið ekki verið lægra í þrjá áratugi

Raungengi krónunnar er nú talsvert lægra en verið hefur síðustu þrjá áratugi. Lætur nærri að hlutfallslegt verð á neysluvörum og þjónustu hér á landi miðað við önnur lönd hafi verið 30% lægra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en raunin var að meðaltali undanfarin 30 ár og staðan er svipuð þegar launakostnaður á Íslandi er borinn saman við viðskiptalönd okkar, að því er fram kemur í morgunkorni Íslandsbanka.

Bankinn bendir því á að Ísland sé ódýrt land þessa dagana, hvort sem miðað er við verðlag eða launakostnað. „Að sama skapi finna landsmenn fyrir lágu raungengi í því hversu dýrt uppihald í utanlandsferðum er þessa dagana, mælt í krónum, og eins því hversu hagstæð launakjör í nágrannalöndum virðast nú vera í krónum talið.

Í nýlega birtum tölum Seðlabankans um raungengi kemur fram að raungengi í mars, mælt á kvarða hlutfallslegs verðlags, lækkaði um 2,4% á milli mánaða. Lækkunin skrifast að mestu á veikingu krónu milli mánaða en væntanlega einnig á 0,6% lækkun vísitölu neysluverðs hér á landi í mars. Mældist raungengi á þennan mælikvarða 77,7 stig, en til samanburðar hefur raungengið að meðaltali verið 98 stig undanfarin 30 ár," segir ennfremur.

Í morgunkorninu er einni bent á að Seðlabankinn hafi birt tölur fyrir þróun raungengis á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar á fyrsta fjórðungi ársins. „Samkvæmt þeim hækkaði raungengið á þann mælikvarða um 14% frá fjórðungnum á undan en mældist samt sem áður tæplega 30% undir meðaltali undanfarinna áratuga. Íslensk fyrirtæki eru nú um stundir mun samkeppnishæfari en áður hvað varðar kostnað við mannaflsfreka starfsemi sem keppir við innflutta eða erlenda starfsemi."

Það á jafnt við um ýmis konar vöruframleiðslu sem og þjónustu. „Lágt raungengi flytur þannig eftirspurn inn í hagkerfið, sem ætti að hjálpa til við að takast á við núverandi efnahagsáföll. Hins vegar má segja að ekki þurfi jafn lágt raungengi og raunin er nú til þess arna. Þannig hefur tvisvar á undanförnum tveimur áratugum komið skeið afgangs á utanríkisviðskiptum, fyrst um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar og svo fljótlega upp úr aldamótum. Á báðum þessum tímabilum var raungengi krónu, miðað við hlutfallslegt verðlag, rúm 90 stig sem er ríflega 30% hærra raungengi en var á fyrsta fjórðungi þessa árs," segir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×