Viðskipti innlent

Moody´s: Reiknar með frekari afskriftum hjá ÍLS

Matsfyrirtækið Moody´s reiknar með frekari afskriftum hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS) vegna niðursveiflunnar í efnahagslífi Íslands í yfirstandandi kreppu. Þetta kemur m.a. fram í áliti Moody´s sem fylgdi með lækkun þess á lánshæfiseinkunn ÍLS í Baa3 í síðustu viku.

Lækkunin var sú sama og hjá ríkissjóði enda er ÍLS í 100% eigu ríkissjóðs. Fram kemur í áliti Moody´s að umfang greiðslufalla á lánum hjá ÍLS nam 570 milljónum kr. í upphafi ársins en var komið í 1,2 milljarða kr. í haust. Hér er um að ræða lán sem ekki hefur verið borgað af í 90 daga.

Moody´s reiknar með að þessi þróun haldi áfram og að eignasafn ÍLS muni bera þess vitni hve efnahagur landsins er veikburða þessa stundina. Því muni afskriftir sjóðsins aukast í náinni framtíð.

Eins og áður hefur komið fram er einkunn Moody´s yfir ÍLS með stöðugum horfum líkt og hjá ríkissjóði. Svipað og hjá ríkissjóði sér Moody´s engin merki um að lánshæfiseinkunnin muni hækka í náinni framtíð.

Það eru hinsvegar nokkrir þættir sem gætu valdið neikvæðum horfum á lánshæfismatinu að sögn Moody´s. Þar er m.a. rætt um frekari veikingu á fjárhagslegum undirstöðum sjóðsins og aukningu á áhættuþáttum í rekstrinum einkum í tengslum við lánabók sjóðsins. Er þá væntanlega átt við að afskriftaþörfin aukist meir en vænst er.

Bein lækkun á einkunninni Baa3 myndi hinsvegar ekki koma til nema lánshæfiseinkunn ríkissjóðs yrði lækkuð eða að stuðningur við sjóðinn myndi minnka, það er ef ríkissjóður selur hluta af sjóðnum eða dregur úr stuðningi við hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×