Skoðun

Eyðsla eins er starf annars

Erna Hauksdóttir skrifar um atvinnumál

Í því ástandi sem nú ríkir á Íslandi skipta viðhorf og hegðun fólks miklu og geta í raun ráðið því hversu vel hjól atvinnulífsins snúast. Atvinnuleysið er farið að nálgast 10% og er það í augum okkar Íslendinga skelfilegt ástand sem við höfum ekki upplifað í áratugi og viljum ekki búa við þrátt fyrir að það sé viðvarandi ástand í löndum sunnar í Evrópu. Það verður meginviðfangsefni stjórnvalda á næstunni að efla atvinnulífið svo fólk komist aftur í vinnu og blasa þar við stór verkefni og skiptir miklu hvernig mál þróast í okkar helstu viðskiptalöndum.

Það eru þó ekki aðeins stjórnvöld sem þurfa að bretta upp ermarnar, landsmenn geta sannarlega lagt þar hönd á plóg. Við eigum að beina sjónum okkar að þeirri staðreynd að 90% landsmanna hafa enn vinnu. Vegna efnahagsástandsins er mikið rætt um sparnað, hvernig fólk geti lækkað kostnað sinn og sleppt því að kaupa hitt og þetta. Það er góðra gjalda vert og alveg ljóst að allir eru að upplifa hærri kostnað s.s. matarkostnað og hækkun lána og þurfa að gæta að sér í fjármálum sínum.

Það eru þó margir sem ekki búa við há lán, í mörgum tilvikum engin, og eiga jafnvel eitthvað í handraðanum. Þetta fólk má ekki hætta að lifa eðlilegu lífi, kaupa í verslunum landsins, halda við húsum sínum, fara á veitingahús, ferðast og svo mætti lengi telja. Af hverju? Vegna þess að ef allir halda að sér höndum, hvort sem þeir þurfa þess eða ekki, hægir á hjólum atvinnulífsins, fleiri fyrirtæki fara í gjaldþrot, fleiri verða atvinnulausir og koll af kolli.

Margföldunaráhrifin eru mikil. Margföldunaráhrifin eru líka mikil ef viðskiptin aukast og eru í raun grunnurinn að því að koma okkur upp úr hjólförunum. Að fara vel með fé er góður kostur en ef fólk tekur sig saman um að kaupa aðeins nauðþurftir, hvort sem nauðsyn knýr það til þess eða ekki, þá er hætta á að við stöðvumst í hjólförunum og lengjum kreppuna.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.




Skoðun

Sjá meira


×