Viðskipti innlent

Íslandsbanki segir erlenda greiðslumiðlun eðlilega

Íslandsbanki hefur frá áramótum, án milligöngu Seðlabanka Íslands, notað reikninga sína í öllum helstu myntum hjá JP Morgan, Danske Bank, Svenska Handelsbanken og SEB til erlendrar greiðslumiðlunar fyrir sína viðskiptavini.

Í tilkynningu segir að viðskiptavinir bankans hafa á þeim tíma getað nýtt greiðslumiðlun bankans til vöru- og þjónustuviðskipta við erlenda aðila. Eins og aðrir bankar notaði Íslandsbanki reikninga Seðlabankans fyrir erlendar færslur frá október til desember á síðasta ári en þar var um að ræða tímabundna ráðstöfun.

Starfsmenn Íslandsbanka hafa á undanförnum mánuðum lagt áherslu á að byggja upp og viðhalda góðum samböndum við erlenda viðskiptabanka og með því hafa gjaldeyris-viðskipti og greiðslumiðlun komist aftur í gott horf á síðustu mánuðum.

Þá hefur Íslandsbanki einfaldað greiðslufyrirmæli sem finna má á heimasíðu bankans, vegna greiðslna til Íslands. Tilgangurinn er að reyna að tryggja að greiðslurnar skili sér í öllum tilfellum inn á reikninga viðskiptavina bankans eins fljótt og kostur er.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×