Viðskipti innlent

Century Aluminium skilar 5 milljarða hagnaði

Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls, skilaði rétt rúmlega 40 milljón dollara eða um 5 milljarða kr. hagnaði á þriðja ársfjórðungi. Er þetta nokkru meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra þegar hann nam 35,8 milljónum dollara.

Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins sem birt var í gærkvöldi. Þar segir að dregið hafi úr tapi Century á fyrstu níu mánuðum ársins. Tapið í ár nemur 181,6 milljónum dollara á móti 201 milljónum dollara á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu að Norðurál framleiði nú 275.000 tonn af áli á árlegum grundvelli. Ennfremur segir að Norðurál haldi áfram framkvæmdum sínum í Helguvík en á hóflegum nótum. Enn sé unnið að því koma byggingu álvers í Helguvík á fullt skrið sem og fjármögnun þess.

„Við höfum náð mikilvægum árangri í að undirbúa Helguvíkurverkefnið fyrir endurupptöku á aðalframkvæmdum þar og vinnuhópi okkar um það verkefni hefur tekist að lækka stofnkostnaðinn með samningum við birgja," segir Logan W. Kruger forstjóri félagsins í tilkynningu um uppgjörið.

Kruger segir einnig að hagræðingar- og sparnaðaraðgerðir á Grundartanga hafi borið árangur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×