Viðskipti innlent

FME rannsakar 13 alþjóðleg fjársvikamál

Gunnar Andersen forstjóri FME.
Gunnar Andersen forstjóri FME.
Fjármálaeftirlitið (FME) rannsakar nú 13 alþjóðleg fjársvikamál, það er mál sem hafa tengingu utan Íslands. Gunnar Andersen forstjóri FME segir í samtali við Bloomberg að þessi mál verði rekin fyrir dómstólum í nokkrum löndum auk Íslands.

„Meira en helmingur þeirra glæpa sem framin var í tengslum við íslenska bankahrunið eru með alþjóðlegar tengingar," segir Gunnar Andersen.

Fram kemur í umfjöllun Bloomberg að Íslendingar eigi nú samvinnu við efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (Serious Fraud Office) og lögregluyfirvöld um alla Evrópu um að hafa uppi á þeim sem flækir eru í hrun íslenska bankakerfisins.

Ólafur Hauksson sérstakur saksóknari segir að fram að þessu hafi embætti hans yfirheyrt eða rætt við á milli 100 og 200 manns. „Sumir þessara einstaklinga hafa stöðu grunaðra aðrir eru vitni eða búa yfir þekkingu sem upplýsir um þá atburði sem urðu í aðdragenda og eftirmálum bankahrunsins," segir Ólafur.

Fram kemur að þeir sem verði fundnir sekir eigi á hættu allt að níu ára fangelsisvist. FME hefur rannsakað 38 mál hingað til og af þeim hafa 27 verið send sérstökum saksóknara.

„Málunum á eftir að fjölga verulega en hingað til höfum við einbeitt okkur að stóru bönkunum þremur," segir Gunnar Andersen. „Verkið sem við þurfum að vinna mun standa út næsta ár að minnsta kosti."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×