Viðskipti innlent

Miklar sveiflur á þróun álverðs á heimsmarkaði

Miklar sveiflur hafa verið á álverðinu á markaðinum í London undanfarin mánuð. Hæst fór verðið 2065 dollara tonnið í þriggja mánaða framvirkum samningum þann 14. ágúst s.l. en stendur í dag í 1916 dollurum.

Eins og sjá má á grafinu sem fylgir þessari frétt hefur álverðið aldrei farið niður fyrir 1900 dollara á tonnið á fyrrgreindu tímabili. Fari efnahagshorfur í heiminum áfram batnandi eins og útlit er fyrir í augnablikinu er ólíklegt að álverið lækki niður fyrir þetta mark á næstunni.

Þróun álverðs hefur talsvert mikið að segja fyrir viðskiptajöfnuð Íslands á komandi árum. Álútflutningur skilar þessa dagana álíka miklum gjaldeyristekjum og útflutningur sjávarafurða. Hins vegar er sá munur á að innflutt aðföng til álframleiðslu eru talsvert meiri en til veiða og vinnslu, auk þess sem hagnaður rennur að lokum til hinna erlendu eigenda álveranna.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni eru sérfræðingar á álmörkuðum sammála um að horfur séu allgóðar næstu árin. Telja þeir að áltonnið geti farið upp undir 2.900 dali að þremur árum liðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×