Viðskipti innlent

Makaskiptasamningar um helmingur allra fasteignaviðskipta

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Undanfarna 3 mánuði hafa makaskiptasamningar verið um 42% fasteignaviðskipta. Tíðni makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum hefur stóraukist frá hruni bankanna síðastliðið haust og hafa makaskiptasamningar verið um eða yfir 20 prósent allra fasteignaviðskipta á markaði samkvæmt gögnum frá Fasteignaskrá Íslands. Greining Íslandsbanka segir frá þessu í dag.

Með makaskiptasamningi er átt við kaupsamning þar sem hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign. Hlutfall makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum byrjaði að hækka samhliða því sem umsvif á fasteignamarkaði tóku að dragast saman á síðasta ári.

Í júlí voru gerðir 65 makaskiptasamningar í fasteignaviðskiptum sem í heild voru 177. Þetta samsvarar því að 37% fasteignaviðskipta þann mánuðinn hafi farið fram með skiptum á fasteignum að einhverjum hluta. Til samanburðar var þetta hlutfall 3,1% í febrúar 2007.

Búast má við því hlutfall makaskiptasamningum í fasteignaviðskiptum muni enn haldast hátt á næstu mánuðum enda er það oft eina leiðin sem fær er til að skipta um húsnæði eða minnka við sig á tímum lausafjárþurrðar og kreppu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×