Viðskipti innlent

Aflaverðmæti eykst um tæp 20% milli ára

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæpum 65 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins 2009, samanborið við rúmlega 54 milljarða yfir sama tímabil 2008. Aflaverðmæti hefur því aukist um tæplega 11 milljarða eða 19,7 % á milli ára. Aflaverðmæti í júli nam 11,2 milljörðum króna miðað við 8,9 milljarða í júlí 2008.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að aflaverðmæti botnfisks var í lok júlí orðið 46 milljarðar króna á árinu sem er aukning um 16,5% frá sama tíma í fyrra þegar aflaverðmætið nam rúmum 39 milljörðum. Verðmæti þorskafla var um 21 milljarður og jókst um 6,9% frá árinu 2008. Aflaverðmæti ýsu nam um 9 milljörðum og stóð nokkurn veginn í stað milli ára.

Verðmæti karfaaflans nam 5,4 milljörðum, sem er 40,7% aukning frá fyrstu sjö mánuðum ársins 2008, og verðmæti ufsaaflans jókst um 4,2% milli ára í 3,4 milljarða króna. Verðmæti annars botnfisksafla jókst í heild um 35,2% miðað við fyrstu sjö mánuði ársins 2008.

Verðmæti flatfiskafla nam rúmum 6 milljörðum króna í janúar til júlí 2009, sem er 73,5% aukning frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla jókst um 15,1% milli ára og nam tæpum 12 milljörðum króna frá janúar til júlí 2009. Munar þar mestu um verðmæti síldarafla sem nam 4,8 milljörðum samanborið við 2,7 milljarð í fyrra og makríl að verðmæti 4,2 milljarðar samanborið við 3 milljarð 2008. Loðnuafli dróst saman um 81,5% og var aflaverðmætið 341 milljónir króna samanborið við 1,8 milljarða árið áður.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam um 25 milljörðum króna fyrstu sjö mánuði ársins og jókst um 15,7% frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 6,9% milli ára og nam 8,6 milljörðum króna.

Aflaverðmæti sjófrystingar nam rúmum 21 milljarði, samanborið við 16 milljarða árið áður. Verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam um 7,8 milljörðum, sem er 18,2% aukning miðað við tímabilið janúar til júlí 2008.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×