Viðskipti innlent

Aflandsgengi krónunnar komið í 300 fyrir evruna

Aflandsgengi krónunnar hefur stöðugt lækkað frá mánaðarmótum og er nú sölugengið komið í 300 kr. fyrir evruna samkvæmt vefsíðunni keldan.is. Kaupgengið stendur hinsvegar í 270 kr.

Eins og áður hefur komið fram í fréttum er þessi þróun talin merki um að sú herðing sem varð á gjaldeyrishöftunum fyrir hálfum öðrum mánuði síðan virkar vel.

Samkvæmt skráningu þess á vefsíðunni keldan.is var sölugengið á aflandsmarkaðinum komið í 245 kr. um síðustu mánaðarmót og hefur því hækkað um tæp 25% síðan þá.

Viðskipti með krónuna á aflandsmarkaðinum eru háð framboði og eftirspurn eins og á öðrum mörkuðum. Það að menn bjóði fleiri krónur fyrir evruna þar þýðir einfaldlega að framboðið á krónum er meira en eftirspurnin, sem sagt engir kaupendur virðast til staðar á markaðinum

Hæst fór gengið í vor eða í 190-210 kr. fyrir evruna og greindi peningastefnunefnd Seðlabankans frá því í fundargerð sinni eftir stýrivaxtaákvörðun nefndarinnar í júlí s.l. Þar kom fram að í lok júní voru viðskipti með krónuna á genginu nálægt 215 gagnvart evru á aflandsmarkaði, en voru á bilinu 190-210 í maí.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×