Viðskipti innlent

Forsætisráðherra: Getum ekki beðið lengur eftir AGS

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að Ísland hafi ekki efni á því að bíða lengur eftir endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarri útborgun sjóðsins í framhaldinu.

Þetta kemur fram í viðtali Bloomberg fréttaveitunnar við forsætisráðherra. „Endurskoðunin hefur dregist alltof lengi," segir Jóhanna.

Fram kemur í máli forsætisráðherra að íslensk stjórnvöld vonist til að endurskoðunin, sem upphaflega átti að vera í febrúar s.l., verði sett á dagskrá AGS í næsta mánuði. „Það er hinsvegar augljóst að AGS vill fá lausn á Icesave málinu áður en endurskoðunin fer fram," segir Jóhanna.

Bloomberg ræðir síðan Icesave málið við Jóhönnu sem segir m.a. að það sé bráðnauðsynlegt að ná niðurstöðu í því sem allir aðilar geti sætt sig við. „Lausn sem eykur á erfiðleika Íslands og Íslendinga er ekki lausn sem ég get fallist á," segir Jóhanna.

Forsætisráðherra bendir á að það sé gífurlega mikilvægt að bæði Bretar og Hollendingar skilji það að Íslendingum sé annt um að standa við skuldbindingar sínar. „Að taka á sig meiri byrðar en við ráðum við er hinsvegar ekki neinum til góðs," segir Jóhanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×